Veður

Gular við­varanir vestan­lands og á há­lendinu

Atli Ísleifsson skrifar
Gular viðvaranir taka gildi um og eftir hádegi.
Gular viðvaranir taka gildi um og eftir hádegi. Veðurstofan

Veðurstofan hefur gefið út gular viðvaranir fyrir Faxaflóa, Breiðafjörð, Vestfirði og Miðhálendið í dag sem spáð er hvassviðri. Viðvaranirnar gilda frá um og eftir hádegi í dag og fram á kvöld, nema fyrir Miðhálendið þar sem viðvörunin gildir fram í fyrramálið.

Í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar segir að skil séu byrjuð að ganga yfir landið og nú i morgunsárið sé farið að hvessa af suðri vestast á landinu. Áfram verði vaxandi sunnanátt á landinu og muni vindur ná stormstyrk á nokkrum stöðum vestanlands og á miðhálendinu, einkum á norðanverðu Snæfellsnesi og norðan jökla. Er spáð 15-23 metrum á sekúndu með hvössum vindstrengjum við fjöll, 25-35 metrum á sekúndu.

„Skilunum fylgir einnig rigning, einkum sunnan- og vestantil, en þó mun einhver dálítil væta ná inná norðausturland. Í kvöld snýst síðan í hægari suðvestanátt með skúrum, en léttir til austantil í nótt og fyrramálið.

Fram að helgi er útlit fyrir suðvestan strekkingsvind og áframhaldandi skúrir um landið vestanvert en bjartviðri austanlands. Seinnipart sunnudags er síðan von á myndarlegri lægð að landinu og með henni allhvöss sunnanátt og rigning en er lægðin fikrar sig norðaustur yfir landið þá snýst í norðanátt og slyddu eða snjókomu norðanlands.“

Skilunum fylgir einnig rigning, einkum sunnan- og vestantil, en þó mun einhver dálítil væta ná inná norðausturland.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á fimmtudag: Suðvestan 5-13 m/s og rigning eða skúrir, en þurrt og bjart að mestu austantil á landinu. Hiti 7 til 13 stig, hlýjast á Norðausturlandi.

Á föstudag: Suðvestlæg átt, 8-15 m/s og smáskúrir vestantil, en hægari vindur og léttskýjað um landið austanvert. Hiti breytist lítið. 

Á laugardag: Suðvestan 10-18 m/s. Rigning með köflum sunnan- og vestanlands, en hægari vindur, bjartviðri og úrkomulítið norðaustan- og austanlands. Áfram milt í veðri.

Á sunnudag: Vaxandi sunnanátt með rigningu, víða allhvass vindur um kvöldið. Hiti 6 til 10 stig.

Á mánudag: Líklega hvöss suðvestlæg eða breytileg átt og rigning um allt land. Útlit fyrir norðlæga átt og slyddu eða snjókomu norðvestantil um kvöldið. Kólnandi veður.

Á þriðjudag (haustjafndægur): Útlit fyrir stífa norðlæga átt með slyddu eða snjókomu norðantil, en þurrt að kalla sunnanlands.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.