Erlent

Úr einni sóttkvínni í aðra vegna kórónaveirunnar

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Diamond Princess liggur enn við bryggju í Yokohama.
Diamond Princess liggur enn við bryggju í Yokohama. Getty

Bandaríkjamenn sem voru á skemmtiferðaskipinu Diamond Princess, sem er í sóttkví í Japan vegna nýju kórónaveirunnar, Covid-19, voru fluttir heim í nótt. Fleiri ríki vinna að því að koma sínu fólki frá borði.

Eftir margra daga sóttkví og einangrun var flestum af þeim 380 Bandaríkjamönnunum sem voru um borð á Diamond Princess flogið til Texas og Kaliforníu í nótt. Skipið hefur verið í sóttkví síðan í upphafi mánaðar og hafa nærri fimm hundruð tilfelli veirunnar verið staðfest um borð.

Farþegarnir sem komu heim til Bandaríkjanna eru þó hvorki á leið heim né til vinnu strax. Í staðinn verður næstu tveimur vikunum varið í sóttkví.

Önnur ríki gera nú áætlanir um að sækja fólk til Yokohama, þar sem skipið er í sóttkví. Heilbrigðisráðherra Ítalíu boðaði til fundar í dag og leiðtogar í bæði Hong Kong og Þýskalandi ræddu við fjölmiðla um framhaldið.

John Lee, öryggismálaráðherra Hong Kong, sagði að tvær flugvélar hafi verið teknar á leigu til þess að ferja fólk heim. Við heimkomu bíður svo, rétt eins og í Bandaríkjunum, tveggja vikna sóttkví.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×