Erlent

For­maður lands­nefndar Demó­krata kallar eftir endur­skoðun niður­staðna í Iowa

Eiður Þór Árnason skrifar
Tom Perez, formaður landsnefndar Demókrataflokksins.
Tom Perez, formaður landsnefndar Demókrataflokksins. Getty/Justin Sullivan

Tom Perez, formaður landsnefndar Demókrataflokksins, hefur kallað eftir endurskoðun á úrslitum kjörfunda sem fram fóru í Iowa-ríki á mánudag.

Miklar tafir hafa orðið á því að tilkynnt verði um endanleg úrslit forvals Demókrata í Iowa vegna misræmis í tilkynningu talna frá kjörfundunum. Vandamálin eru rakin til tæknilegra örðugleika í nýju snjallforriti sem var notað til að halda utan um talninguna.

Um var að ræða fyrsta forvalið af mörgum þar sem Demókratar velja sér forsetaframbjóðanda fyrir komandi kosningar.

Perez hefur ekki kallað eftir eiginlegri endurtalningu heldur óskað eftir því að farið verði yfir gögn frá kjörfundunum og þau borin saman tilkynntar niðurstöður frá flokksstjórn Demókrata í Iowa.

Með þessu vill formaðurinn tryggja nákvæmni niðurstaðna og auka traust almennings á þeim.

Tafirnar hafa leitt til mikillar óánægju og óvissu en nú hafa niðurstöður borist frá 97% kjörfundanna sem fram fóru í ríkinu á mánudag. Sem stendur munar afar litlu á frambjóðendunum Bernie Sanders og Pete Buttigieg sem deila toppsætinu.

New York Times greindi frá því fyrr í dag að greining sérfræðinga bendi til þess að úrslitin frá umræddum kjörfundum séu full af misræmi og mistökum.

Þeir telja ekkert benda til þess að um vísvitandi hagræðingu úrslita hafi verið að ræða og að misræmið hafi ekki hyglað efstu tveimur frambjóðendunum.


Tengdar fréttir

Enn mjótt á munum hjá Demókrötum í Iowa

Niðurstöður úr prófkjöri Demókrata í Iowa fyrir bandarísku forsetakosningarnar fóru loks að berast í gærkvöldi eftir langa töf. Mjótt er á munum á milli efstu frambjóðenda.

Buttigieg efstur í forvali Demókrata sem stendur

Pete Buttigieg, fyrrverandi borgarstjóri South Bend í Indiana, er sem stendur efstur í forvali Demókrataflokksins í Iowa fyrir forsetakosningarnar sem fara fram í nóvember næstkomandi.

Óánægja og tafir í Iowa

Miklar tafir hafa orðið á því að hægt sé að greina frá úrslitum í forvali demókrata í Iowa sem fram fór í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×