Erlent

Buttigieg efstur í forvali Demókrata sem stendur

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Pete Buttigieg var borgarstjóri South Bend í Indiana.
Pete Buttigieg var borgarstjóri South Bend í Indiana. vísir/epa

Pete Buttigieg, fyrrverandi borgarstjóri South Bend í Indiana, er sem stendur efstur í forvali Demókrataflokksins í Iowa fyrir forsetakosningarnar sem fara fram í nóvember næstkomandi. Hann hefur naumt forskot á Bernie Sanders, öldungadeildarþingmann; er með 26,9% en Sanders 25,1%.

Úrslit hafa skilað sér frá 62% kjörfunda svo röðun frambjóðendanna gæti breyst þegar hin 38% koma í hús.

Elizabeth Warren, öldungadeildarþingmaður, er með 18,3% og Joe Biden, fyrrverandi varaforseti, 15,6%. Fyrir fram voru þeir Sanders og Biden taldir sigurstranglegastir.

Forvalið fór fram í gær og átti að upphaflega að birta úrslitin klukkan þrjú í nótt að íslenskum tíma en það hefur tafist um tæpan sólarhring vegna tæknilegra örðugleika. Vandræðin komu upp í nýju snjallforriti sem var notað til að halda utan um talninguna.

Forvalið í Iowa er ekki hefðbundin atkvæðagreiðsla heldur safnast kjósendur saman á kjörfundum í íþróttahúsum og samkomusölum þar sem þeir skipta sér í hópa eftir því hvaða frambjóðanda þeir styðja.

Auk tölvukerfis sem var notað til að skrásetja úrslitin styðjast fulltrúar flokksins við myndir af úrslitum og skjölum um þau til að staðfesta úrslit.

Alls keppast ellefu manns um að hljóta útnefningu sem forsetaframbjóðandi Demókrataflokksins í forvalinu.


Tengdar fréttir

Óánægja og tafir í Iowa

Miklar tafir hafa orðið á því að hægt sé að greina frá úrslitum í forvali demókrata í Iowa sem fram fór í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×