Enski boltinn

Liverpool getur jafnað met Arsenal á Etihad

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Liverpool hefur unnið 21 af fyrstu 22 leikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni.
Liverpool hefur unnið 21 af fyrstu 22 leikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni. vísir/getty

Liverpool gæti jafnað met Arsenal yfir flesta deildarleiki í röð án taps þegar liðið sækir Manchester City heim 4. apríl næstkomandi.

Liverpool hefur leikið 39 deildarleiki í röð án þess að tapa. Síðast tapaði liðið fyrir City á útivelli 3. janúar 2019. Það var jafnframt eina tap Liverpool á síðasta tímabili.

Arsenal á metið yfir flesta leiki í röð án taps í efstu deild á Englandi. Skytturnar töpuðu ekki í 49 leikjum í röð frá 2003 til 2004 og fóru ósigraðar í gegnum tímabilið 2003-04.

Manchester United kom í veg fyrir að Arsenal myndi ná 50 leikjum ósigraðir í röð með 2-0 sigri í frægum leik á Old Trafford 24. október 2004.

Liverpool gæti tryggt sér sinn fyrsta Englandsmeistaratitil í 30 ár með sigri á Etihad 4. apríl næstkomandi.

Í leiknum þar á undan fær Liverpool Crystal Palace í heimsókn. Palace er síðasta liðið sem vann á Anfield í apríl 2017.

Liverpool getur aukið forskot sitt á toppi ensku úrvalsdeildarinnar í 16 stig með sigri á Wolves á Molineux í kvöld. Leikurinn hefst klukkan 20:00.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×