Erlent

Kín­verjar krefjast af­sökunar­beiðni vegna skop­myndar Jyllands-Posten

Atli Ísleifsson skrifar
Á myndinni má sjá kínverska fánann teiknaðan nema gulu stjörnunum hefur verið skipt út fyrir kórónaveirunni.
Á myndinni má sjá kínverska fánann teiknaðan nema gulu stjörnunum hefur verið skipt út fyrir kórónaveirunni. Skjáskot af vef JP

Kínversk yfirvöld fram á að danska blaðið Jyllands-Posten biðjist opinberlega afsökunar á skopmyndateikningu sem birtist í blaðinu í gær. Á myndinni má sjá kínverska fánann teiknaðan nema gulu stjörnunum hefur verið skipt út fyrir kórónaveirunni.

DR greinir frá því að í yfirlýsingu frá kínverska sendiráðinu í Danmörku segi að skopmyndin sé móðgun við kínversku þjóðina sem glími nú við útbreiðslu afbrigðis af kórónaveirunni. Eigi teiknarinn Niels Bo Bojesen að viðurkenna mistök í málinu og biðjast afsökunar.

Vilja Kínverjar meina að með teikningunni hafi blaðið gengið lengra en siðferðisleg mörk tjáningarfrelsisins segi til um og móðgað kínversku þjóðina.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem skopmyndir Jyllands-Posten vekja umtal og deilur, en árið 2005 leiddu skopmyndir í blaðinu af Múhameð spámanni til milliríkjadeilna þar sem múslimar víðs vegar um heim fordæmdu birtinguna.

Jacob Nybroe, aðalritstjóri Jyllands-Posten, hefur hafnað því að biðja Kínverja afsökunar á skopmyndinni sem birtist í gær.

Alls hafa á annað hundrað manns nú látist af völdum veitunnar og tilkynnt um á fimmta þúsund smitaðra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×