Erlent

Gagnvirkt kort sýnir útbreiðslu Wuhan-veirunnar

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Skjáskot af kortinu. Eins og sjá má er mikill meirihluti staðfestra smittilfella í Kína.
Skjáskot af kortinu. Eins og sjá má er mikill meirihluti staðfestra smittilfella í Kína. John Hopkins/Skjáskot

Sérfræðingar við kerfis- og verkfræðideild John Hopkins-háskóla í Maryland í Bandaríkjunum hafa komið á fót gagnvirku „hitakorti,“ þar sem hægt er að sjá útbreiðslu nýs afbrigðis kórónavíruss, sem kennt hefur verið við kínversku borgina Wuhan, þaðan sem veiran er talin eiga uppruna.

Kortið sýnir með rauðum deplum hvar staðfest smit hafa greinst, en stærð deplana fer eftir fjölda staðfestra tilfella. Kortið er hægt að nálgast hér, en það er uppfært afar reglulega.

Kortinu fylgja síðan ítarlegar tölfræðilegar upplýsingar, meðal annars tölur yfir staðfest smit á heimsvísu, en einnig sundurliðaðar tölur eftir heimshlutum og minni svæðum þar sem við á.

Þegar þetta er skrifað hafa hátt í 4700 smit verið staðfest og 106 beðið bana vegna veirunnar. Þá hafa 79 smitast og náð sér að fullu, samkvæmt upplýsingum frá John Hopkins.

Í dag bárust fréttir af því að fyrsta tilfelli veirunnar hafi verið staðfest í Þýskalandi. Þá hafa stjórnvöld í Hong Kong lokað á lesta- og ferjusamgöngur á milli borgarinnar og meginlands Kína.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×