Erlent

Loka á lestar- og ferju­sam­göngur milli Hong Kong og megin­landsins

Atli Ísleifsson skrifar
Carrie Lam bar græna andlitsgrímu þegar hún greindi frá aðgerðunum fyrr í dag.
Carrie Lam bar græna andlitsgrímu þegar hún greindi frá aðgerðunum fyrr í dag. epa

Carrie Lam, leiðtogi Hong Kong, hefur tilkynnt að allar lestar- og ferjusamgöngur milli Hong Kong og meginlands Kína verði stöðvaðar frá og með fimmtudeginum næsta, 30. janúar. Er það gert til að reyna að hefta útbreiðslu Wuhan-kórónaveirunnar.

Lam bar græna andlitsgrímu þegar hún greindi frá aðgerðunum fyrr í dag. Sagði hún að auk þess verði flugferðum milli Hong Kong og meginlandsins fækkað um helming og tímabundið verði hætt að gefa út leyfi til ferðalaga þar á milli.

Samkvæmt nýjustu tölum frá kínverskum heilbrigðisyfirvöldum hafa 106 látist vegna kórónaveirunnar og um 4.500 manns smitast í Kína. Alls hefur fengist staðfest að átta hafi smitast af veirunni í Hong Kong, einni af helstu fjármálamiðstöðvum heimsins.

Fullvíst er talið að veiran eigi uppruna sinn í borginni Wuhan í Hubei-héraði og eru flestir hinna smituðu búsettir þar.

Veiran hefur engu að síður dreift sér um Kína og til annarra landa líkt og Bandaríkjanna, Frakklands, Suður-Kóreu, Japans, Nepal, Taílands, Singapúr, Víetnam, Kambódíu, Srí Lanka, Kanada og nú síðast Þýskalands.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.