Innlent

Wu­han-veiran: Hægt verður að greina sýni hér á landi eftir nokkra daga

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir. Vísir/baldur

Ekkert Wuhan-kórónaveirusmit hefur verið staðfest á Íslandi enn sem komið er. Sóttvarnalæknir mælir með að ferðamenn sleppi „ónauðsynlegum ferðalögum“ til svæða þar sem faraldur veirunnar er í gangi. Þá er gert ráð fyrir því að eftir nokkra daga verði hægt að greina sýni hér á landi, að því er fram kemur í stöðuskýrslu almannavarna vegna kórónaveirunnar.

Ríkislögreglustjóri lýsti yfir óvissustigi almannavarna vegna veirunnar þann 27. janúar 2020 í samráði við sóttvarnalækni og embætti landlæknis.

Í stöðuskýrslu almannvarna segir að sóttvarnalæknir geri ráð fyrir að veiran berist til Íslands og því mikilvægt að grípa til ráðstafanna til að hefta útbreiðslu hennar sem mest hér á landi. „Engar aðgerðir munu hins vegar tryggja að veiran berist ekki hingað til lands,“ segir í skýrslunni.

Almenningur og ferðamenn á Íslandi sem telja sig hafa sýkst af veirunni eru hvattir til að hringja í síma 1700, eða +354 5444113 fyrir erlend númer, varðandi nánari upplýsingar. Þeir eru sérstaklega beðnir um að mæta ekki á bráðamóttöku eða heilsugæslustöðvar nema að fengnum ráðleggingum í síma.

Þá verða aðeins tekin sýni úr einstaklingum sem eru með einkenni veikinda. Ekki eru tekin sýni frá einkennalausum einstaklingum. Gert er ráð fyrir því að eftir nokkra daga verði hægt að greina sýni hér á landi. Þá gera viðbragsáætlanir ráð fyrir að ef upp komi sýking hér á landi verði einstaklingur í einangrun í tíu daga eftir að hann er hitalaus.

Sýking af völdum veirunnar hefur verið staðfest hjá 4587 einstaklingum, langflest í Kína, og um 106 hafa látist. Þá hafa einnig fengist upplýsingar um alvarleg veikindi hjá fjölda einstaklinga. Fyrirhugaður er fundur almannavarna á morgun með starfsfólki Keflavíkurflugvallar. Upplýsingum verður komið áfram til annarra flugvalla.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.