Erlent

Yfir 100 látin vegna Wuhan-veirunnar og 4.500 smituð

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Yfir 100 eru látin vegna Wuhan-veirunnar.
Yfir 100 eru látin vegna Wuhan-veirunnar. vísir/getty

Alls eru að minnsta kosti 106 látin vegna Wuhan-kórónaveirunnar og um 4.500 manns smitaðir í Kína.

Hert hefur verið á ferðabönnum í landinu og er almenningi í sumum borgum nú skylt að ganga um með grímur fyrir vitunum svo hefta megi frekari útbreiðslu veirunnar.

Talið er að veiran eigi uppruna sinn í borginni Wuhan í Hubei-héraði og eru flestir hinna smituðu búsettir þar.

Veiran hefur engu að síður dreift sér um Kína og til annarra landa líkt og Bandaríkjanna, Frakklands, Suður-Kóreu, Japans, Nepal, Taílands, Singapúr, Víetnam, Kambódíu, Srí Lanka og Kanada.

Veiran hefur ekki enn greinst hér á landi en ríkislögreglustjóri hefur lýst yfir óvissustigi almannavarna í samráði við sóttvarnalækni og embætti landlæknis vegna veirunnar.

Þá var greint frá því á Vísi í gærkvöldi að íslenskt par hefði verið sett í einangrun á spítalanum í Torrevieja, skammt frá Alicante á Spáni, vegna gruns um að þau séu smituð af kórónaveirunni.

Konan er sögð 66 ára og maðurinn 52 ára og eiga þau hafa verið í Kína en aðeins annað þeirra sýnir einkenni veirusmits.

Að því er fram kemur á vef BBC staðfestu kínversk stjórnvöld í gær að fimmtugur maður í Beijing hefði látið lífið vegna veirunnar. Er það fyrsta staðfesta dauðsfallið í kínversku höfuðborginni.

Wuhan-veiran veldur lungnabólgu og hvorki er til lækning né bóluefni. Flestir þeirra sem hafa látist vegna veirunnar hafa verið búsettir í Hubei-héraði og hafa verið eldri fólk eða einstaklingar með undirliggjandi öndunarfærasjúkdóma.


Tengdar fréttir

Lýsa yfir óvissustigi vegna kórónaveirunnar

Ríkislögreglustjóri hefur lýst yfir óvissustigi almannavarna í samráði við sóttvarnalækni og embætti landlæknis vegna kórónaveirunnar. Ekkert smit hefur verið staðfest á Íslandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×