Erlent

Þingmenn sóru eið sem kviðdómur Donalds Trump

Kjartan Kjartansson skrifar
Þingmenn öldungadeildarinnar stóðu upp og héltu annarri hendinni á lofti þegar Roberts bað þá um að sverja eið um að framfylgja réttlætinu af hlutlægni.
Þingmenn öldungadeildarinnar stóðu upp og héltu annarri hendinni á lofti þegar Roberts bað þá um að sverja eið um að framfylgja réttlætinu af hlutlægni. Vísir/EPA

Fyrsta formlega skrefið í réttarhöldum öldungadeildar Bandaríkjaþings yfir Donald Trump forseta vegna mögulegra embættisbrota hans var stigið í gær þegar hundrað þingmenn deildarinnar sóru eið sem kviðdómendur. Réttarhöldin eiga að hefjast á þriðjudag í næstu viku.

John Roberts, forseti Hæstaréttar Bandaríkjanna bað þingmennina um að sverja eiðinn og að „framfylgja réttlætinu á óhlutdrægan hátt“. Að svo búnu frestaði Mitch McConnell, leiðtogi öldungadeildarinnar og repúblikana, fundi um undirbúning réttarhaldanna og sagði að þau hæfust klukkan 13:00 að íslenskum tíma þriðjudaginn 21. janúar.

Fulltrúadeild þingsins kærði Trump forseta fyrir embættisbrot í tveimur liðum, annars vegar fyrir að misnota vald sitt þegar hann þrýsti á úkraínsk stjórnvöld að rannsaka pólitískan keppinaut hans og hins vegar fyrir að hindra rannsókn þingsins á því.

Trump brást reiður við á Twitter í gær og tísti í hástöfum um að hann hefði verið „KÆRÐUR FYRIR FULLKOMIÐ SÍMTAL“. Vísaði forsetinn þar til símtals hans og Volodýmýr Zelenskíj, forseta Úkraínu, í júlí. Trump hefur ítrekað fullyrt að símtalið hafi verið „fullkomið“ þrátt fyrir að minnisblað sem Hvíta húsið birti sjálft um efni þess hafi sýnt að Trump þrýsti ítrekað á Zelenskíj að rannsaka Joe Biden, fyrrverandi varaforseta og mögulegan mótherja Trump í kosningum í haust, og stoðlausa samsæriskenningu um kosningarnar árið 2016.

Afar ósennilegt þykir að Trump verði sakfelldur og vikið úr embætti í öldungadeildinni. Aukinn meirihluta þingmanna þarf til að sakfella forseta en Repúblikanaflokkur Trump er með meirihluta í deildinni, 53 sæti gegn 47 sætum demókrata.

Leiðtogar repúblikana, þar á meðal McConnell, hafa gefið í skyn að þeir ætli að afgreiða réttarhöldin hratt og sýkna forsetann. McConnell sagði meðal annars í aðdraganda þeirra að hann ætlaði að vinna náið með Hvíta húsinu að réttarhöldunum þrátt fyrir að þingmenn eigi að koma fram sem óhlutdrægir kviðdómendur.

Demókratar hafa á sama tíma krafist þess að öldungadeildin leiði fram ný vitni og hlýði á ný sönnunargögn í málinu, þar á meðal frá embættismönnum sem Trump og Hvíta húsið hafa komið í veg fyrir að beri vitni.


Tengdar fréttir

Brutu lög með frystingu neyðaraðstoðar til Úkraínu

Sjálfstæð eftirlitsstofnun með framkvæmdavaldi Bandaríkjanna hefur komist að þeirri niðurstöðu að Hvíta húsið hafi brotið lög þegar neyðaraðstoð til Úkraínu, sem þingið hafði samþykkt, var fryst.

Búið að tilkynna hverjir flytja málið gegn Trump

Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, tilkynnti í dag hvaða þingmenn munu flytja mál þingsins gegn Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, í öldungadeildinni, þar sem nokkurs konar réttarhöld munu fara fram.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.