Strákarnir hans Hodgson eyðilögðu afmælisdag Guardiola | Endurkomusigur Úlfanna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Fernandinho skorar sjálfsmarkið sem tryggði Crystal Palace stig gegn Manchester City.
Fernandinho skorar sjálfsmarkið sem tryggði Crystal Palace stig gegn Manchester City. vísir/getty

Manchester City og Crystal Palace skildu jöfn, 2-2, á Etihad vellinum í ensku úrvalsdeildinni í dag. Pep Guardiola, knattspyrnustjóri City, fékk því ekki sigur í afmælisgjöf.

Cenk Tosun kom Palace yfir með sínu fyrsta marki fyrir félagið á 39. mínútu. Sergio Agüero jafnaði á 82. mínútu og skoraði svo annað mark sitt fimm mínútum síðar.

Á lokamínútunni varð Fernandinho svo fyrir því óláni að skora sjálfsmark sem tryggði Palace stig.

City er í 2. sæti deildarinnar með 48 stig, 13 stigum á eftir Liverpool sem á tvo leiki til góða. Palace er í 9. sætinu.

Wolves vann góðan sigur á Southampton, 2-3, eftir að hafa verið 2-0 undir í hálfleik.

Jan Bednarek og Shane Long komu Dýrlingunum í 2-0 og staða þeirra var afar vænleg í hálfleik. En Úlfarnir sneru dæminu sér í vil í seinni hálfleik.

Pedro Neto minnkaði muninn í 1-2 og Raúl Jiménez skoraði svo tvö mörk og tryggði Úlfunum stigin þrjú. Með sigrinum komst Wolves upp í 6. sæti deildarinnar. Southampton er í því tólfta.

Bournemouth tapaði sínum fjórða leik í röð þegar liðið beið lægri hlut fyrir Norwich City, 1-0, á Carrow Road.

Teemu Pukki skoraði eina mark leiksins eftir rúman hálftíma úr vítaspyrnu sem dæmd var á Steve Cook, fyrirliða Bournemouth. Hann varði skot Ondrejs Duda með hendi og fékk á sig víti og rautt spjald. Ben Godfrey, leikmaður Norwich, fékk einnig reisupassann í seinni hálfleik.

Norwich er áfram í neðsta sæti deildarinnar en nú sex stigum frá öruggu sæti. Bournemouth er í nítjánda og næstneðsta sætinu með 20 stig.

Þá gerðu Brighton og Aston Villa 1-1 jafntefli. Leandro Trossard kom Brighton yfir á 38. mínútu en Jack Grealish jafnaði fyrir Villa þegar stundarfjórðungur var til leiksloka.

Brighton er í 14. sæti með 25 stig en Villa í því átjánda með 22 stig.

Úrslit dagsins:
Man. City 2-2 Crystal Palace
Southampton 2-3 Wolves
Norwich 1-0 Bournemouth
Brighton 1-1 Aston Villa
Arsenal 1-1 Sheffield United
West Ham 1-1 Everton
Watford 0-0 Tottenham

Bein lýsing

Leikirnir
    Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.