Íslenski boltinn

Rúnar: Gæti verið með alla leik­mennina á æfingu í líkams­ræktar­stöð og í sundi

Anton Ingi Leifsson skrifar
Rúnar Kristinsson á hliðarlínunni fyrr í sumar.
Rúnar Kristinsson á hliðarlínunni fyrr í sumar. VÍSIR/DANÍEL

Rúnar Kristinsson, þjálfari Íslandsmeistara KR, skilur ekkert í því að það sé ekki verið að spila fótbolta hér á landi um þessar mundir.

KR dróst í gær gegn skosku meisturunum í Celtic í forkeppni Meistaradeildarinnar en þessi lið mættust ekki fyrir svo mörgum árum og þá vann Celtic samanlagt 5-0 sigur.

Það er því ljóst að erfitt verkefni bíður KR-inga og ekki er það léttara með þeim sóttvarnarreglum sem eru í gildi varðandi knattspyrnufólk. Rúnar ræddi um reglurnar og leikinn í samtali við Fótbolti.net.

Liðum er meinað að æfa eðlilega og öllum leikjum hefur verið frestað, í það minnsta til 13. ágúst, en Rúnar segir að Íslandsmeistararnir reyni að gera hvað þeir geta úr þessu, þó að hann skilji ekki ástandið.

„Við höldum áfram að æfa eins og öll lið í Pepsi Max-deildinni eru að gera, með þessari tveggja metra reglu. Ég held að það séu ekki margir að virða hana þó menn séu að reyna eftir fremsta magni,“ sagði Rúnar í samtali við Fótbolti.net en viðtalið má lesa í heild sinni þar.

„Það hafa engin smit á Íslandi komið upp í fótboltaleikjum eða á fótboltaæfingum á Íslandi. Það hafa engin smit komið upp í fótboltaleikjum á Englandi, Þýskalandi, Spáni og Ítalíu. Það er með ólíkindum að við séum ekki að spila hér.“

Hann segir að það sé misræmi í hvað megi og hvað megi ekki og tók þar af leiðandi undir stjórn nafna síns, Rúnars Páls Sigmundssonar, þjálfara Stjörnunnar.

„Leikmenn koma klæddir á æfingar. En eins fáránlegt og þetta er, þá gæti ég verið með alla leikmenn mína á æfingu í líkamsræktarstöð því þar mega 100 koma saman. Við getum líka farið í sund saman.“

„Þetta snýst um það að halda tveggja metra reglunni. Ég vona að heilbrigðisráðherra átti sig á þessu og breyti þessu. Ég vona að hún átti sig á því hvar smitin eru því þau eru á öðrum stöðum en fótboltavöllunum," sagði Rúnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×