Íslenski boltinn

Sjáðu markið sem tryggði ÍBV langþráðan sigur og dramatíkina í Árbænum og á Meistaravöllum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Eyjakonur voru kátar eftir langþráðan sigur í gær.
Eyjakonur voru kátar eftir langþráðan sigur í gær. vísir/daníel

Þrír leikir fóru fram í 7. umferð Pepsi Max-deildar kvenna í gær. ÍBV lyfti sér upp úr fallsæti með 0-1 útisigri á FH, Fylkir vann nauman sigur á Stjörnunni, 2-1, og KR bjargaði stigi gegn Þrótti með marki undir blálokin, 1-1. Sjöundu umferðinni lýkur með stórleik Breiðabliks og Vals klukkan 19:15 í kvöld.

Lettneski miðjumaðurinn Olga Sevcova skoraði eina mark leiksins þegar ÍBV sótti FH heim í Kaplakrika. Þetta var fyrsti sigur Eyjakvenna síðan þær unnu Þróttara, 4-3, í 1. umferðinni. Eftir sigurinn er ÍBV í 8. sæti deildarinnar en FH er í því tíunda og neðsta.

Eftir tvö jafntefli í röð vann Fylkir Stjörnuna, 2-1, í Árbænum. Eva Rut Ásþórsdóttir kom Fylkiskonum yfir en Arna Dís Arnþórsdóttir jafnaði fyrir Stjörnuna sem missti Shameeku Fishley af velli með rautt spjald á 70. mínútu. 

Bryndís Arna Níelsdóttir skoraði sigurmark Árbæinga fjórum mínútum fyrir leikslok. Þetta var fjórða mark þessa sautján ára framherja í Pepsi Max-deildinni í sumar.

Fylkir er í 3. sæti deildarinnar með ellefu stig, fimm stigum á eftir toppliði Vals. Stjarnan, sem hefur tapað fjórum leikjum í röð, er í 7. sætinu með sex stig.

Hlíf Hauksdóttir kom í veg fyrir KR tapaði fyrir Þrótti á Meistaravöllum með jöfnunarmarki þegar fimm mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma. Ólöf Sigríður Kristinsdóttir hafði komið Þrótti yfir á 76. mínútu.

Þróttarar hafa ekki tapað í fjórum síðustu leikjum sínum og eru í 6. sæti deildarinnar. KR er í því níunda og næstneðsta með fjögur stig.

Mörkin úr leikjum gærdagsins í Pepsi Max-deild kvenna má sjá hér fyrir neðan.

Klippa: Pepsi Max-deild kvenna: Mörk og viðtöl



Fleiri fréttir

Sjá meira


×