Íslenski boltinn

Sjáðu markið sem tryggði ÍBV langþráðan sigur og dramatíkina í Árbænum og á Meistaravöllum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Eyjakonur voru kátar eftir langþráðan sigur í gær.
Eyjakonur voru kátar eftir langþráðan sigur í gær. vísir/daníel

Þrír leikir fóru fram í 7. umferð Pepsi Max-deildar kvenna í gær. ÍBV lyfti sér upp úr fallsæti með 0-1 útisigri á FH, Fylkir vann nauman sigur á Stjörnunni, 2-1, og KR bjargaði stigi gegn Þrótti með marki undir blálokin, 1-1. Sjöundu umferðinni lýkur með stórleik Breiðabliks og Vals klukkan 19:15 í kvöld.

Lettneski miðjumaðurinn Olga Sevcova skoraði eina mark leiksins þegar ÍBV sótti FH heim í Kaplakrika. Þetta var fyrsti sigur Eyjakvenna síðan þær unnu Þróttara, 4-3, í 1. umferðinni. Eftir sigurinn er ÍBV í 8. sæti deildarinnar en FH er í því tíunda og neðsta.

Eftir tvö jafntefli í röð vann Fylkir Stjörnuna, 2-1, í Árbænum. Eva Rut Ásþórsdóttir kom Fylkiskonum yfir en Arna Dís Arnþórsdóttir jafnaði fyrir Stjörnuna sem missti Shameeku Fishley af velli með rautt spjald á 70. mínútu. 

Bryndís Arna Níelsdóttir skoraði sigurmark Árbæinga fjórum mínútum fyrir leikslok. Þetta var fjórða mark þessa sautján ára framherja í Pepsi Max-deildinni í sumar.

Fylkir er í 3. sæti deildarinnar með ellefu stig, fimm stigum á eftir toppliði Vals. Stjarnan, sem hefur tapað fjórum leikjum í röð, er í 7. sætinu með sex stig.

Hlíf Hauksdóttir kom í veg fyrir KR tapaði fyrir Þrótti á Meistaravöllum með jöfnunarmarki þegar fimm mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma. Ólöf Sigríður Kristinsdóttir hafði komið Þrótti yfir á 76. mínútu.

Þróttarar hafa ekki tapað í fjórum síðustu leikjum sínum og eru í 6. sæti deildarinnar. KR er í því níunda og næstneðsta með fjögur stig.

Mörkin úr leikjum gærdagsins í Pepsi Max-deild kvenna má sjá hér fyrir neðan.

Klippa: Pepsi Max-deild kvenna: Mörk og viðtöl


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.