Erlent

Útgöngubann í Melbourne

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Daniel Andrews er forsætisráðherra Viktoríu.
Daniel Andrews er forsætisráðherra Viktoríu. Andy Brownbil/AP

Útgöngubanni hefur verið komið á í áströlsku borginni Melbourne og í nágrenni hennar eftir að 191 einstaklingur greindist með kórónuveiruna á einum degi í Viktoríu, einu fjölmennasta fylki Ástralíu, þar sem borgin er staðsett.

Næstu sex vikur þarf fólk í borginni og nágrenni mikið til að halda sig heima. Fólk má þannig eingöngu yfirgefa heimili sitt til þess að versla í matinn, sækja nauðsynlega þjónustu, hreyfa sig eða leggja stund á nám og vinnu, að því gefnu að ekki sé hægt að gera það heima.

Daniel Andrews, forsætisráðherra Viktoríu, segir að fólk megi þó ekki yfirgefa borgina til þess að hreyfa sig, og að fólk verði að halda sig á lögheimili sínu. Þannig geti fólk ekki sloppið undan útgöngubanninu með því að færa sig í sumarbústað eða annað heimili, svo dæmi séu tekin.

Minnst níu fjölbýlishús í borginni eru nú í svokölluðu „hörðu útgöngubanni.“ Það þýðir að íbúarnir mega ekki yfirgefa heimili sitt af nokkurri ástæðu.

Í gær var greint frá því að áströlsk yfirvöld hefðu ákveðið að loka fylkjamörkunum milli Viktoríu og Nýju- Suður-Wales, en það eru tvö fjölmennustu fylki landsins.

Ástralir hafa fyrst og fremst glímt við smit sem hafa komið til landsins með fólki erlendis frá, en að undanförnu hefur um 80 prósent nýrra smitast flokkast sem innanlandssmit.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×