Enski boltinn

Verslanir í Liverpool með tilboð fyrir Jürgena

Sindri Sverrisson skrifar
Jürgen Klopp hefur náð stórkostlegum árangri sem knattspyrnustjóri Liverpool.
Jürgen Klopp hefur náð stórkostlegum árangri sem knattspyrnustjóri Liverpool. VÍSIR/GETTY

Nítjánda Englandsmeistaratitli Liverpool var ákaft fagnað í Liverpool-borg í gærkvöld og verður sjálfsagt áfram fagnað næstu daga.

Jürgen Klopp og lærisveinar hans munu því miður ekki geta fagnað titlinum með stuðningsmönnum enn um sinn, en borgaryfirvöld í Liverpool hafa staðfest að veisluhöld verði um leið og það verði hægt. Kórónuveirufaraldurinn veldur því að ekki er ætlast til þess að fólk hópist saman, og hugsanlega verður það ekki fyrr en á næsta ári sem að Liverpool-menn geta ekið í opinni rútu um götur borgarinnar og fagnað með stuðningsmönnum sínum.

Fá inneignarnótu fyrir nafnið

Borgarbúar gera hins vegar ýmislegt til að halda upp á titilinn og eigendur þriggja matvöruverslana, Jack‘s supermarket, bjóða nú upp á óvenjulegt tilboð.

Allir þeir sem bera nafnið Jürgen, eða Jurgen, geta komið í verslanirnar og fengið 100 punda inneignarnótu, bara fyrir það að bera nafn knattspyrnustjórans sem færði borginni langráðan Englandsmeistaratitil. Það er Liverpool Echo sem greinir frá þessu en ekki fylgir sögunni hve margir Jürgenar búa í Liverpool, þar sem verslanirnar þrjár eru allar staðsettar.

Stöðugur uppgangur hjá Þjóðverjanum

Klopp tók við af Brendan Rodgers sem knattspyrnustjóri Liverpool 8. október 2015 og skrifaði undir samning til þriggja ára. Liverpool var þá í 10. sæti úrvalsdeildarinnar og hafði lent í 6. sæti tímabilið á undan, en uppgangurinn undir stjórn Þjóðverjans hefur verið nánast stöðugur. Hann fór með liðið í tvo úrslitaleiki á fyrsta tímabilinu, í deildabikarnum og Evrópudeildinni, en varð að sætta sig við tap í bæði skiptin. Eftir tímabilið skrifaði hann undir framlengingu á samningi til ársins 2022.

Liverpool varð í 4. sæti úrvalsdeildarinnar 2017 og kom sér aftur í Meistaradeild Evrópu, þar sem liðið lék svo til úrslita ári síðar en tapaði fyrir Real Madrid. Liverpool varð í 4. sæti úrvalsdeildarinnar en lenti svo í 2. sæti deildarinnar í fyrra, eftir ævintýralega harða keppni við Manchester City. Liðið varð þá Evrópumeistari og vann sinn fyrsta stóra titil frá árinu 2012. Nú er liðið Englandsmeistari, í fyrsta sinn í þrjátíu ár.


Tengdar fréttir

Frumkvöðlarnir Salah og Mané

Sadio Mané og Mohamed Salah, tveir af lykilmönnum Liverpool, hafa skráð sig rækilega í sögubækurnar með því að verða Englandsmeistarar.

„Ótrúlegt afrek hjá leikmönnum mínum“

„Þetta er ótrúlegt,“ sagði Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri nýkrýndra Englandsmeistara Liverpool í fótbolta, eftir að titillinn var í höfn í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×