Liverpool Englandsmeistari eftir sigur Chelsea

Anton Ingi Leifsson skrifar
Stuðningsmenn Liverpool fagna Englandsmeistaratitlinum um allan heim í kvöld.
Stuðningsmenn Liverpool fagna Englandsmeistaratitlinum um allan heim í kvöld. VÍSIR/GETTY

Liverpool er Englandsmeistari í fótbolta í fyrsta sinn í þrjátíu ár en þetta varð ljóst í kvöld þegar Chelsea vann Manchester City, 2-1.

Sjö umferðir eru eftir af deildinni og Liverpool, sem hefur aðeins tapað einum leik á tímabilinu, er með 86 stig og nú 22 stiga forskot á City þegar aðeins 21 stig er í pottinum.

Leikmenn Manchester City munu því væntanlega standa heiðursvörð fyrir Liverpool-menn þegar liðin mætast í næstu umferð, í Manchester eftir viku.

Sigurinn í kvöld var kærkominn fyrir Chelsea í baráttunni um Meistaradeildarsæti. Liðið er með 52 stig í 4. sæti, fimm stigum á undan Manchester United og Wolves.

Christian Pulisic kom Chelsea í 1-0 eftir að hafa tekið boltann af Benjamin Mendy við miðlínuna.VÍSIR/GETTY

Christian Pulisic kom Chelsea í 1-0 á 36. mínútu eftir að hann vann boltann af Benjamin Mendy við miðlínu og brunaði með hann fram, einn gegn Ederson. Kevin De Bruyne jafnaði metin beint úr aukaspyrnu snemma í seinni hálfleik. Það var svo komið fram á 77. mínútu þegar Chelsea var í stórsókn sem endaði með því að Fernandinho varði skot á línu með hendi. Dómarinn sá það ekki en eftir að atvikið var skoðað á myndbandi fékk Fernandinho rautt spjald og Chelsea víti sem að Willian skoraði af öryggi úr.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira