Enski boltinn

Enskt úrvalsdeildarfélag tók lán upp á 29 milljarða til að ná endum saman

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Þetta hefur verið strembið tímabil hjá Tottenham, innan vallar sem utan.
Þetta hefur verið strembið tímabil hjá Tottenham, innan vallar sem utan. EPA-EFE/ANDY RAIN

Enska úrvalsdeildarfélagið Tottenham Hotspur tók lán upp á 175 milljónir punda þar sem liðið verður af gífurlegum upphæðum sökum kórónufaraldursins.

Íþróttafélög um allan heim verða af gífurlegum fjárhæðum sökum kórónufaraldursins. Talið er að Tottenham verði af allt að 200 milljónum punda sökum þess að þurfa leika fyrir luktum dyrum en völlur félagsins tekur ríflega 62 þúsund manns í sæti.

Þá verður félagið af miklum tekjum vegna annarra viðburða sem áttu að fara fram á heimavelli þeirra - sem heitir einfaldlega Tottenham Hotspur völlurinn - en hefur nú verið aflýst. Þar má nefna tónleika hjá Lady Gaga og Guns N‘ Roses sem og titilbardaga Anthony Joshua gegn Kubrat Pulev.

Hefur félagið því ákveðið að taka lán upp á 175 milljónir punda eða 29 milljarða íslenskra króna.

Daniel Levy, formaður Tottenham, segir að félagið hafi aldrei lent í öðru eins.

„Á mínum tuttugu árum sem formaður félagsins hafa verið margar hindranir sem hefur þurft að yfirstíga en engin af þessari stærðargráðu. Það er mikilvægt að við vinnum saman og finnum örugga leið til að hleypa áhorfendum aftur á íþróttaleikvanga,“ sagði Levy í viðtali við íþróttadeild breska ríkisútvarpsins, BBC.

Eftir að hafa tekið þátt í Meistaradeild Evrópu undanfarin fjögur ár er Tottenham sem stendur í 8. sæti ensku úrvalsdeildarinnar, sjö stigum á eftir nágrönnum sínum í Chelsea sem sitja í 4. sæti en það er síðasta sætið sem gefur þátttökurétt í Meistaradeild Evrópu.

Það gæti þó farið svo að liðið í 5. sæti fái sæti í Meistaradeildinni fari það svo að Manchester City verði dæmt í bann fyrir brot á fjárhagsreglugerð knattspyrnusambands Evrópu.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.