Enski boltinn

Rodgers fékk kórónuveiruna: „Ég gat varla gengið“

Sindri Sverrisson skrifar
Brendan Rodgers er með Leicester í 3. sæti ensku úrvalsdeildarinnar.
Brendan Rodgers er með Leicester í 3. sæti ensku úrvalsdeildarinnar. VÍSIR/GETTY

Brendan Rodgers, knattspyrnustjóri Leicester í ensku úrvalsdeildinni, segist varla hafa getað gengið eftir að hann smitaðist af kórónuveirunni í mars. Hann hafi hins vegar náð fullum bata.

Rodgers er annar knattspyrnustjórinn í úrvalsdeildinni sem ljóst er að hefur fengið veiruna. Áður hafði verið greint frá því að Mikel Arteta, stjóri Arsenal, hefði smitast. Rodgers segist hafa fundið sterk einkenni og nánast misst andann þegar þau voru verst, en hann veiktist skömmu eftir að hlé var gert á úrvalsdeildinni í mars.

„Ég gat varla gengið og þetta minnti mig á það að ganga upp á Kilimanjaro,“ sagði Rodgers sem fór upp á Kilimanjaro árið 2011 í þágu góðs málefnis.

„Við fengum viku frí þegar við áttum að mæta Watford og svo viku eftir það fór ég að finna fyrir þessu. Ég fann hvorki lykt né bragð í þrjár vikur. Ég hafði engan kraft, og viku seinna var konan mín alveg eins. Við fórum í próf og reyndumst bæði smituð af veirunni,“ sagði Rodgers sem er 47 ára gamall.

Undarlegt að borða mat án þess að finna bragð eða lykt

„Ég man þegar ég reyndi svo að hlaupa aftur og það var bara erfitt að fara tíu metra. Ég var ekki með neina matarlyst og það var mjög undarlegt að borða mat án þess að finna bragð eða vita hvernig hann lyktaði. Þetta fær mig til að kunna virkilega vel að meta það að vera við góða heilsu,“ sagði Rodgers.

Frá því að æfingar í litlum hópum voru leyfðar á ný á þriðjudag hafa greinst 12 smit hjá ensku úrvalsdeildarfélögunum. Níu umferðir eru eftir af deildinni og hefur verið ákveðið að keppni hefjist að nýju 17. júní. Leicester er í 3. sæti með 53 stig, fjórum stigum á eftir Manchester City.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.