Erlent

Trump lýsir yfir neyðar­á­standi í Banda­ríkjunum vegna veirunnar

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Trump heldur ávarp sitt í Hvíta húsinu í kvöld.
Trump heldur ávarp sitt í Hvíta húsinu í kvöld. Vísir/getty

Donald Trump Bandaríkjaforseti lýsti nú í kvöld yfir neyðarástandi í Bandaríkjunum vegna faraldurs kórónuveiru. Ríkisstjórn hans verður þannig heimilt að veita allt að 50 milljörðum Bandaríkjadala í baráttu yfirvalda við veiruna.

Þessu greindi Trump frá í ávarpi sem sent var beint út frá Hvíta húsinu í kvöld. Forsetinn kvaðst lýsa yfir neyðarástandi til að „leysa úr læðingi fullan kraft alríkisstjórnarinnar.“ Þá hvatti hann öll ríki Bandaríkjanna til að koma á fót neyðarmiðstöðvum í baráttu sinni við veiruna. Milljörðunum verður varið í ýmiss konar neyðaraðstoð í ríkjum Bandaríkjanna.

Í frétt Reuters segir að afar fátítt sé að neyðarástandi sé lýst yfir vegna smitsjúkdómafaraldurs í Bandaríkjunum. Úrræðinu var beitt árið 2000 í forsetatíð Bill Clinton vegna vesturnílarveirunnar (e. West Nile virus).

Trump hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir viðbrögð sín við faraldrinum og ummæli um hann síðustu daga. Hann hefur verið sakaður um að hafa dregið verulega úr alvarleika málsins og þá hefur lengi verið þrýst á hann að lýsa yfir neyðarástandi í landinu.

Fyrr í dag gagnrýndi forsetinn Sóttvarnastofnun Bandaríkjanna (CDC) harðlega á Twitter. Hann sagði forsvarsmenn stofnunarinnar hafa varið áratugum í að skoða viðbragðskerfi hennar og sakaði þá um aðgerðaleysi.

Staðfest kórónuveirusmit í Bandaríkjunum eru um 1700 og dauðsföll af völdum veirunnar eru fjörutíu. Fyrr í vikunni kom Trump á ferðabanni frá Schengen-svæðinu í Evrópu til Bandaríkjanna vegna veirunnar. Bannið nær m.a. til Íslands og er talið munu hafa víðtæk áhrif á samgöngur og efnahagslíf hér á landi.


Tengdar fréttir

Trump og Pence ætla ekki að gangast undir rannsókn

Hvorki Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, né Mike Pence, varaforseti, munu gangast undir rannsókn við Covid-19, sjúkdómnum sem nýja kórónuveiran veldur, eftir að brasilískur embættismaður sem fundaði nýverið með þeim greindist með veiruna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×