Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, ætlar að funda með Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, um ferðabann sem Bandaríkjastjórn ætlar að leggja á Evrópu vegna kórónuveirufaraldursins í Washington-borg á fimmtudag í næstu viku. Þetta staðfesti Guðlaugur Þór í viðtali við Heimi Má Pétursson, fréttamann Stöðvar 2, eftir ríkisstjórnarfund í Ráðherrabústaðnum í Tjarnargötu í morgun.
Íslensk stjórnvöld komu strax á framfæri mótmælunum sínum við ferðabannið eftir að Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti óvænt um það í sjónvarpsávarpi á aðfaranótt fimmtudags. Guðlaugur Þór óskaði í kjölfarið eftir fundi með Pompeo utanríkisráðherra.
„Það sem ég er að auðvitað gera með því að funda með Pompeo er að leggja áherslu á það sem við höfum sagt og þau skilaboð sem ég hef komið á framfæri við bandarísk stjórnvöld. Það skiptir mjög miklu máli að við eigum samtal við þá um þetta mál og önnur þau sem tengjast löndunum,“ sagði ráðherrann.
Sjá einnig: Íslensk stjórnvöld mótmæla aðgerðum bandarískra stjórnvalda
Að óbreyttu fer fundurinn fram á fimmtudag.
„Við skulum vona að það verði ekki margar fleiri sviptingar í gangi,“ sagði Guðlaugur Þór í viðtali í morgun.
Ferðabannið, sem nær til Evrópulanda innan Schengen-svæðisins og gildir í þrjátíu daga, kom evrópskum ráðamönnum, þar á meðal íslenskum að óvörum. Það hafði einnig mikil áhrif á fjármálamarkaði um allan heim í gær. Á Íslandi lækkuðu hlutabréf í Icelandair um rúman fimmtung við opnun kauphallarinnar. Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, lýsti ferðabanninu sem „reiðarslagi“ fyrir íslensku þjóðina.
Guðlaugur Þór lagði áherslu á gott samstarf sitt við Pompeo til þessa. Þannig hefði Pompeo verið fyrsti bandaríski utanríkisráðherrann til að heimsækja Ísland í mörg ár.
„Samstarfið hefur verið gott og ég vona að það verði gott áfram,“ sagði hann.
Spurður að því hvort að ákvörðun hans um að aflýsa heræfingunni Norðurvíkingi sem átti að halda hér á landi í gær hafi tengst ferðabanni Bandaríkjastjórnar sagði Guðlaugur Þór að ekki hafi verið forsendur fyrir æfingunni í ljósi bannsins.
Fréttin hefur verið uppfærð.