Erlent

Prófessor í bólu­efna­fræðum segir bólu­efni við kórónu­veirunni geta verið til­búið í septem­ber

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar

Sarah Gilbert, prófessor í bóluefnafræðum við Oxford háskóla, segir að bóluefni við kórónuveirunni sem veldur Covid-19 sjúkdómnum gæti verið tilbúið með haustinu. Gilbert leiðir rannsóknateymi sem vinnur nú að því að þróa bóluefni gegn veirunni, sem hefur nú smitað meira en 1,7 milljónir um heim allan.

Samkvæmt tölum frá Johns Hopkins háskólanum hafa nú meira en 100 þúsund manns fallið í valinn vegna veirunnar. Þá hefur smituðum í Bandaríkjunum fjölgað verulega en meira en 500 þúsund manns hafa smitast af veirunni þar í landi, sem eru meira en þrisvar sinnum fleiri en á Spáni þar sem næstflest smit hafa komið upp.

Gilbert sagði í samtali við fréttastofu Times að hún væri „80 prósent viss“ um að bóluefnið sem teymi hennar þróar nú muni vernda fólk gegn sjúkdómnum sem veiran veldur. Þá bætti hún við: „Ég held að það séu miklar líkur á því að það muni virka miðað við reynslu okkar af svipuðum bóluefnum. Þetta eru ekki bara getgátur hjá mér og með hverri viku fjölgar gögnum sem við byggjum þetta á.“

Flestir sérfræðingar hafa sagt að það muni taka allt að 18 mánuði að þróa slíkt bóluefni og dreifa því um heiminn en Gilbert vill flýta ferlinu með því að fá sjálfboðaliða til að prófa bóluefnið og sjá hvort það virki. Hún sagði að sjálfboðaliðar frá svæðum þar sem útgöngubann hefur ekki verið sett á myndu gefa skýrari niðurstöður.

„Ef það er mikið smit úti í samfélaginu á einum stað munu niðurstöður frá fólki þaðan gefa okkur niðurstöður á mjög stuttum tíma, þannig að það gæti einnig stytt biðtímann til muna.“

„Ef það er algert útgöngubann verður það erfiðara,“ viðurkenndi hún. „En við viljum ekki búa til hjarðónæmi heldur. Við viljum að fólkið sé næmt fyrir veirunni til að tilraunin beri ávöxt.“

Þá sagði hún að það væri alveg mögulegt að þróa bóluefni fyrir septembermánuð ef allt gengur eins og skyldi en hún varaði við því að enginn gæti lofað því að efnið virkaði.


Tengdar fréttir

Til­rauna­lyf vekur vonir

Tveir af hverjum þremur sem veikst hafa alvarlega af völdum COVID-19 sýna batamerki eftir að hafa hlotið meðferð með tilraunalyfinu Rendesivir sem framleitt er af bandaríska lyfjafyrirtækinu Gilead.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×