Enski boltinn

Leikmönnum sagt að líta undan eftir tæklingar

Sindri Sverrisson skrifar
Leikmenn eiga að gæta þess að vera ekki með andlitið ofan í næsta manni, hvernig sem það á að vera hægt.
Leikmenn eiga að gæta þess að vera ekki með andlitið ofan í næsta manni, hvernig sem það á að vera hægt. VÍSIR/GETTY

Ef að keppni í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta á að geta hafist að nýju á næstunni þurfa leikmenn að vera tilbúnir að gera ákveðnar breytingar á sínum leik, til að mynda að líta undan eftir tæklingar í stað þess að snúa andlitum saman, til að minnka smithættu.

The Telegraph greinir frá þessu og segir að breyta þurfi fleiri þáttum í fótboltamenningunni, bæði á æfingum og í leikjum, til að boltinn fari að rúlla að nýju. Farið verði yfir þessi mál á fundi í dag þar sem fyrirliðar liðanna í deildinni ræði við þá sem stýra deildinni, fulltrúa leikmannasamtaka og stjórnvalda.

Keppni í ensku úrvalsdeildinni var stöðvuð í mars vegna kórónuveirufaraldursins en vonir standa til þess að hægt verði að hefja keppni að nýju í júní. Leikmenn mega hefja æfingar í litlum hópum á mánudaginn. Hins vegar er ljóst að hluta leikmanna líst illa á að snúa aftur til æfinga og keppni, og samkvæmt The Telegraph verður enginn neyddur til að mæta á æfingu. Með fundinum í dag á meðal annars að slá á áhyggjur leikmanna með því að útskýra til hvaða aðgerða verði gripið til að tryggja öryggi þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×