Trump sagði að leiðtogar ríkjanna myndu halda áfram viðræðum en frá og með 1. september myndi Bandaríkjastjórn hækka tolla á kínverskan varning um auka 10%.
Viðskiptaþvinganirnar munu hafa áhrif á neytendur í Bandaríkjunum en vörur á borð við Iphone, strigaskó, raftæki og leikföng munu hækka í verði með nýju tollunum.
Trump lét í ljós óánægju sína eftir að hafa fundað með bandarísku sendinefndinni, með Steven Mnuchin fjármálaráðherra og Robert Lighthizer í broddi fylkingar, í Hvíta húsinu í dag en sendinefndin sneri aftur heim í dag eftir að hafa setið við samningaborðið í Shanghai í vikunni.
Trump varð afar ósáttur þegar sendinefndin greindi honum frá gangi viðræðna og þegar hann komst að því að Kínverjar gætu ekki lofað því að fjárfesta í bandarískum landbúnaðarvörum. Trump sagðist hafa talið sér trú um að það hefði verið niðurstaða fundar hans og Xi Jinping, forseta Kína, í sumar. Hann sagði að leiðtogi Kína hefði einnig lofað sér að reyna að koma í veg fyrir innflutning á Fentanyl til Bandaríkjanna.
Þjóðarleiðtogarnir tveir sættust á að hefja samningaviðræður að nýju á leiðtogafundi G20-ríkjanna í Japan í lok júní. Trump segir að þrátt fyrir boðaðar tollahækkanir sé hann sannfærður um að samstarf ríkjanna tveggja verði gott í framtíðinni.
...buy agricultural product from the U.S. in large quantities, but did not do so. Additionally, my friend President Xi said that he would stop the sale of Fentanyl to the United States – this never happened, and many Americans continue to die! Trade talks are continuing, and...
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) August 1, 2019