Enski boltinn

Hjartnæm stund á leik Liverpool og Manchester City um helgina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andy Robertson og Georginio Wijnaldum með fána til stuðnings Sean Cox.
Andy Robertson og Georginio Wijnaldum með fána til stuðnings Sean Cox. Getty/John Powell
Liverpool getur náð níu stiga forskoti á Manchester City þegar liðin mætast á Anfield á sunnudaginn en þetta verða líka mikil tímamót fyrir einn 54 ára gamlan stuðningsmann Liverpool.

Liverpool stuðningsmaðurinn Sean Cox mun á sunnudaginn mæta í fyrsta sinn á Anfield eftir árásina sem hann varð fyrir Meistaradeildarleikinn á móti Roma. Hann verður heiðursgestur á leiknum ásamt fjölskyldu sinni.

Stuðningsmenn ítalska félagsins Roma réðust á Sean Cox fyrir utan Anfield í apríl 2018. Hann hlaut alvarlegan heilaskaða í árásinni. Eftir átján mánaða meðferð á Írlandi þá hefur Sean Cox nú hafið aðra tólf vikna meðferð hjá sérfræðingi á norður Englandi sem mun hjálpa honum með tal og hreyfingar.





Goðsagnir Liverpool og írska landsliðsins mættust í vor í söfnunarleik fyrir Sean Cox en leikurinn fór fram í Dublin á Írlandi. Alls söfnuðust 748 þúsund evrur í Sean Cox Rehabilitation sjóðinn.

Martina, eiginkona Cox, segist sjá framfarir hjá manni sínum en að þær gangi hægt og hann eigi enn þá mjög erfitt með að tjá sig.

Ítalinn Simone Mastrelli var dæmdur í þriggja og hálfs árs fangelsi fyrir árásina.

„Við erum mjög ánægð með að geta boðið Sean og fjölskyldu hans aftur velkomin á Anfield. Þetta verður örugglega tilfinningaþrungin stund fyrir fjölskylduna. Félagið hefur unnið mjög náið með Cox-fjölskyldunni til að gera þessa heimsókn eins auðvelda og kostur er,“ sagði Peter Moore, stjórnarformaður Liverpool.

„Það hvernig stuðningsmenn okkar hafa stutt við bakið á Cox-fjölskyldunni sýnir vel hollustu þeirra gagnvart Liverpool fjölskyldunni og við vitum að þannig verður þetta einnig á sunnudaginn,“ sagði Peter Moore.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×