Erlent

Pompeo laug um símtalið við Zelensky

Samúel Karl Ólason skrifar
Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.
Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. AP/Andrew Medichini
Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefur viðurkennt að hafa verið á línunni þegar Donald Trump, forseti, bað Volodymir Zelensky, forseta Úkraínu, um að rannsaka Joe Biden, pólitískan andstæðing sinn. Fyrst þegar fjölmiðlar komust á snoðir um símtalið neitaði Pompeo að tjá sig um það því hann vissi ekki af því og hafði ekki lesið eftirrit upp úr því.

Símtal þetta hefur leitt til þess að Demókratar hófu ákæruferli gegn Trump fyrir embættisbrot og segja hann hafa misnotað vald sitt og utanríkisstefnu Bandaríkjanna í pólitískum hagnaði. Skömmu áður en Trump ræddi við Zelensky hafði hann fryst um 400 milljóna dala neyðaraðstoð til Úkraínu.

Þegar Zelensky ræddi hernaðaraðstoð og vopnakaup við Trump sagði hann: „Þú þarft samt að gera okkur greiða“ og bað hann um að rannsaka Biden vegna innihaldslausrar samsæriskenningar um Biden og son hans Hunter.

Sjá einnig: Trump segir Demókrata fremja valdarán



Fyrst þegar Pompeo var spurður út í símtalið sagðist hann ekkert vita um það. Síðustu daga hafa fjölmiðlar ytra fengið heimildir fyrir því að Pompeo hafi verið á línunni og staðfesti hann það í dag á blaðamannafundi á Ítalíu.

Uppljóstrari sem kvartaði vegna símtalsins sagði starfsmenn Trump hafa gripið til aðgerða til að reyna að koma í veg fyrir að upplýsingar um símtalið lækju til fjölmiðla, af ótta við að Trump hafi brotið lög í samtali sínu við Zelensky. Allar upplýsingarnar hafi verið færðar úr tölvukerfinu sem geymir yfirleitt gögn um símtöl sem þessi, yfir í tölvukerfi sem geymir leynileg gögn. Það var svo staðfest að gögnin hafi verið færð á milli kerfa.



Nú hafa fregnir borist af því að það tölvukerfi hafi verið uppfært í kjölfarið svo hægt væri að fylgjast með því hverjir hefðu aðgang að því.



Í gær sendi Pompeo svo bréf til þingsins þar sem hann gagnrýndi þingmenn fyrir að vilja ræða við starfsmenn Utanríkisráðuneytisins vegna málsins. Sakaði hann þingmenn um að reyna að ógna starfsmönnum sínum og sagði þá ekki hafa tíma til að svara spurningum þeirra.

Bréf Pompeo hefur reitt þingmenn til reiði sem saka ráðherrann um að reyna að hindra framgang rannsóknar þeirra. Politico segir bréfið einnig hafa vakið reiði meðal núverandi og fyrrverandi starfsmanna ráðuneytisins sökum þess að Pompeo hafi gert lítið sem ekkert til að verja starfsmennina gegn starfsmönnum Hvíta hússins og að Pompeo sjálfur hafi gengið hart fram gegn starfsmönnum sínum. Einn starfsmaður sagði bréfið vera „hámark kaldhæðni“.



Undirmaður Pompeo hefur þar að auki verið sakaður um að misþyrma starfsmönnum.


Tengdar fréttir

Reyndu að fela upplýsingar um símtal Trump og Zelensky

Leyniþjónustunefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings hefur birt svokallaða uppljóstrarakvörtun sem leitt hefur til þess að Demókratar á þingi hafa hafið formlegt ákæruferli á hendur Donald Trump, forseta Bandaríkjanna.

Trump leggur til handtöku pólitísks andstæðings

Donald Trump Bandaríkjaforseti lagði í dag til að handtaka skyldi pólitískan andstæðing sinn fyrir landráð vegna ummæla um samskipti Trumps við Úkraínuforseta. Forseti Úkraínu segir ríki sitt ekki þurfa að hlýða skipunum annarra.

Fátt sem kemur í veg fyrir hefndir Trump gegn uppljóstraranum

Sérfræðingar óttast að Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, og bandamenn hans komi upp um uppljóstrarann sem kom upp um símtal hans við Volodymyr Zelensky, forseta Úkraínu, þar sem Trump bað hann um að rannsaka Joe Biden, pólitískan andstæðing sinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×