Erlent

Trump leggur til handtöku pólitísks andstæðings

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Bandaríski forsetinn fór mikinn á Twitter í dag. Tjáði hann sig þar einkum um hið svokallaða Úkraínumál, sem er nú í hámæli í Bandaríkjunum.

Málið snýst einna helst um símtal Trumps við Volodímír Selenskíj Úkraínuforseta. Í símtalinu fór Trump fram á rannsókn á meintum óeðlilegum afskiptum Joes Biden, líklegs forsetaframbjóðanda Demókrata, í Úkraínu. Trump er sagður hafa gert rannsóknina að skilyrði fyrir áframhaldandi hernaðaraðstoð.

Engin gögn hafa komið fram sem benda til þess að afskipti Bidens hafi verið óeðlileg eða í þágu sonar síns, eins og Trump heldur fram.

Kínverska utanríkisráðuneytið hafnaði einnig í dag þeirri staðhæfingu Trump-liða að kínversk stjórnvöld hafi gefið syni Bidens hálfan annan milljarð dala vegna samningaviðræðna ríkjanna.

Á Twitter stakk Trump upp á því að Adam Schiff, formaður upplýsingamálanefndar fulltrúadeildar þingsins, yrði handtekinn fyrir landráð. Sagði hann að Schiff hafi á ólöglegan hátt skáldað ummæli og eignað forsetanum.

Tíst Trumps um Schiff í dag.
„Ég ætla bara að segja þetta sjö sinnum, þannig hlustaðu vel. Ég vil að þú grafir upp skít á pólitískan andstæðing minn, skilurðu?“

Þetta er brot af þeim ummælum sem Trump vitnar til. Þau féllu á nefndarfundi á fimmtudag er Schiff var að umorða, og ýkja, það sem Trump sagði í símtalinu. Slíkt er ekki ólöglegt.

Selenskíj tjáði sig sjálfur um málið í dag. Sagði Úkraínu sjálfstætt ríki sem þyrfti ekki að hlýða kröfum annarra en hélt opnum möguleikanum á rannsókn.


Tengdar fréttir

Ætla að svipta hulunni af fleiri símtölum Trump

Þingmenn Demókrataflokksins eru staðráðnir í því að koma höndum yfir eftirrit og önnur gögn um símtöl Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, við aðra þjóðarleiðtoga eins og Vladimir Pútín, forseta Rússlands.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.