Erlent

Trump kallar eftir því að yfirvöld Kína rannsaki Biden

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. AP/Andrew Harnik
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, kallar eftir því að yfirvöld í Kína rannsaki Joe Biden, pólitískan andstæðing Trump, og son hans, Hunter Biden. Sömuleiðis kallar hann eftir því að yfirvöld í Úkraínu rannsaki feðgana. Um er að ræða viðbrögð Trump við ákæruferli Demókrata á hendur Trump fyrir embættisbrot.

Trump óskaði í símtali við Volodymir Zelensky, forseta Úkraínu, í sumar eftir rannsókn á meintum óeðlilegum afskiptum Joe Biden þar í landi. Skömmu áður hafði Trump fryst hundrað milljóna dala hernaðaraðstoð sem samþykkt hafði verið til Úkraínu. Samkvæmt lögum Bandaríkjanna er ólöglegt að þiggja hjálp erlends ríkis í kosningum. Biden þykir líklegastur til að hljóta tilnefningu Demókrataflokksins til forsetakosninganna 2020.

Ákall forsetans um rannsókn Kínverja kom óumbeðið þegar Trump var spurður út í nákvæmlega hvað hann vildi frá Zelensky.

„Kína ætti að hefja rannsókn á Biden-feðgunum,“ sagði hann. Hann sagðist ekki hafa beðið Xi Jinping, forseta Kína, um að hefja slíka rannsókn, „enn sem komið er“ og sagðist ætla að hugsa um það.

Þá gaf Trump í skyn að Kína hefði einhvern veginn fengið góðan viðskiptasamning við Bandaríkin út af Biden-feðgunum.

Trump og bandamenn hans halda því fram að Hunter Biden, sonur Joes Biden, hafi nýtt stöðu föður síns til að sannfæra Kínverja um að fjárfesta fyrir einn og hálfan milljarð dala í fjárfestingarfélagi sem hann átti hlut í.


Tengdar fréttir

Pompeo laug um símtalið við Zelensky

Fyrst þegar fjölmiðlar komust á snoðir um símtalið neitaði Pompeo að tjá sig um það því hann vissi ekki af því og hafði ekki lesið eftirrit upp úr því.

Óvissa um eftirrit af símtali Trump og Zelensky

Núverandi og fyrrverandi starfsmenn Hvíta hússins, segja eftirrit af símtali Donald Trump og Volodymir Zelensky, forsetum Bandaríkjanna og Úkraínu, bera ummerki þess að hluti samskipta þeirra hafi verið fjarlægður.

Trump segir Demókrata fremja valdarán

Donald Trump Bandaríkjaforseti sakar demókrata á þingi um að skipuleggja valdarán með tilraunum sínum til að rannsaka embættisfærslur forsetans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×