Erlent

Krefst þess að alþjóðasamfélagið hafni aðgerðum Bandaríkjanna

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Ali Akbar Salehi, orkumálaráðherra Írans, á fundinum í Vín í dag.
Ali Akbar Salehi, orkumálaráðherra Írans, á fundinum í Vín í dag. AP/Ronald Zak
Orkumálaráðherrar Írans og Bandaríkjanna mættust á fundi Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar í dag og þrátt fyrir vettvanginn var olían til umræðu. Bandaríkjamenn fullyrða að Íranar beri ábyrgð á árásinni á olíuframleiðslustöð Aramco enda hefur ítrekað verið fjallað um stuðning þeirra við uppreisnarhreyfingu Húta, sem berjast við hernaðarbandalag undir forystu Sádi-Araba í Jemen.

„Ég vil ítreka það að Bandaríkin fordæma árás Írans á Sádi-Arabíu,“ sagði Rick Perry, orkumálaráðherra Bandaríkjanna, á fundinum.

Ali Akbar Salehi, orkumálaráðherra Írans, var á öðru máli. „Gjöreyðileggjandi aðgerðir Bandaríkjastjórnar og efnahagsleg hryðjuverk hennar ættu að sæta fordæmingu og höfnun alþjóðasamfélagsins.“

Bandaríkjastjórn birti í nótt gervihnattarmyndir af stöðinni og sagðist búa yfir upplýsingum um að Íranar hefðu staðið að árásinni. Donald Trump forseti sagði svar Bandaríkjamanna, sem eru bandamenn Sádi-Araba, velta á því hvað þarlend stjórnvöld vilja gera.

Turki al-Maliki, upplýsingafulltrúi sádiarabíska hersins, kallaði árásina hryðjuverk í dag. „Allt bendir til þess að árásin hafi ekki komið frá Jemen, líkt og Hútar halda fram. Þessar sveitir eru einungis verkfæri írönsku byltingavarðasveitarinnar.“

Olíuverð hefur hækkað vegna árásarinnar, enda renna um fimm prósent hráolíu heimsins í gegnum stöðina. Óvíst er hver langtímaáhrif árásarinnar verða enda óljóst hversu lengi framleiðslustöðin verður óstarfhæf.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×