Erlent

Segir uppgang hægri leiðtoga vera ógn við frjáls­lynd lýð­ræðis­sam­fé­lög

Sylvía Hall skrifar
Sadiq Khan segir þróun undanfarinna ára vera áhyggjuefni fyrir lýðræðið sjálft.
Sadiq Khan segir þróun undanfarinna ára vera áhyggjuefni fyrir lýðræðið sjálft. Vísir/Getty
Sadiq Khan, borgarstjóri Lundúna, fer ófögrum orðum um leiðtoga á borð við Donald Trump Bandaríkjaforseta og Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, í grein sinni í Observer. Hann segir framgang og fylgi „öfgafullra hægri leiðtoga“ grafa undan umburðarlyndi og réttindum ýmissa minnihlutahópa og stefna þeirra leiði til þess að fólk fari að gleyma þeim lærdómi sem mátti draga af seinni heimsstyrjöldinni.„Afleiðingarnar eru líka sjáanlegar í Bretlandi, þar sem umsvifamikil áhrif Nigel Farage og Brexit-flokks hans hefur ýtt Íhaldsflokknum í þá átt að vera með harðari hægri stefnu og minna umburðarlyndi,“ segir borgarstjórinn.Khan segir Trump vera holdgerving hvítrar þjóðernishyggju á heimsvísu og að fleiri leiðtogar í Evrópu séu farnir að fylgja hans fordæmi, þar á meðal forsætisráðherra Breta. Þá nefnir hann sem dæmi stöðu hinsegin fólks í Póllandi og segir hana vera varhugaverða þróun.Þetta er ekki í fyrsta skipti sem borgarstjórinn gagnrýnir Bandaríkjaforseta með svo beinskeyttum hætti, en fyrr í sumar sagði hann orðræðu Trump vera þá sömu og fasistar 20. aldarinnar notuðu.Sjá einnig: Borgarstjóri London líkir Trump við fasista 20. aldarinnar„Trump, Bandaríkjaforseti, er eitt af svívirðilegri dæmunum um stigvaxandi ógn á alheimskvarða. Öfgahægrið rís upp um allan heim og ógnar réttindum sem við höfum lengi barist fyrir, ógnar frelsi okkar ásamt þeim gildum sem við höfum tileinkað okkur í frjálslyndum lýðræðissamfélögum síðustu 70 ára,“ ritaði Khan í grein sinni í júnímánuði.Nýjasta grein Khan er rituð í tilefni þess að áttatíu ár eru liðin frá upphafi seinni heimsstyrjaldarinnar. Sjálfur er hann staddur í Póllandi með öðrum heimsleiðtogum þar sem fórnarlamba heimsstyrjaldarinnar verður minnst. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, er á meðal gesta.„Við ættum að vera stolt af sigri Bretlands í stríðinu, en líka af því að byggja upp þann frið sem fylgdi í kjölfarið,“ segir borgarstjórinn í grein sinni og undirstrikar stórt hlutverk Atlantshafsbandalagsins og Evrópusambandsins í þeirri friðarvinnu sem fylgdi í kjölfarið.„Stuðningur við lýðræði er í metlægð í vestrænum heimi og þau gildi sem skilgreina frjálslynd lýðræðissamfélög eiga undir högg að sækja – allt frá lögum og reglu og sjálfstæði dómstóla yfir í frjálsa fjölmiðlun og lifandi borgaraleg samfélög.“

Tengd skjöl


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.