Erlent

Komu Trump til Bretlands mótmælt í stærstu borgum landsins

Sighvatur Arnmundsson skrifar
Trump ásamt Elísabetu Englandsdrottningu.
Trump ásamt Elísabetu Englandsdrottningu. Fréttablaðið/EPA
Donald Trump Bandaríkjaforseti kom í gær í opinbera heimsókn til Bretlands ásamt Melaniu eiginkonu sinni. Þau heimsóttu meðal annars Buckingham höll þar sem þau hittu meðal annars Elísabetu drottningu.Trump sagði á Twitter frá því að konungsfjölskyldan væri frábær og sagði samband ríkjanna tveggja mjög gott. Þá sagði hann að stór viðskiptasamningur væri mögulegur þegar Bretland hefði kastað af sér hlekkjunum, og átti þar við útgöngu Breta úr ESB.Mótmæli hafa verið boðuð víða í Bretlandi í tilefni þriggja daga heimsóknar Bandaríkjaforseta. Þannig hafa meðal annars verið boðuð mótmæli í Lundúnum, Manchester, Belfast og Birmingham.Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, ákvað að sniðganga opinberan kvöldverð með Trump. Þess í stað verður Corbyn meðal ræðumanna á mótmælafundi í Lundúnum.Corbyn sagði að þátttaka í mótmælafundinum væri tækifæri til að sýna samstöðu með öllum þeim sem Trump hefði ráðist á í Bandaríkjunum og öllum heiminum. Vísaði hann sérstaklega til ummæla Trumps um Sadiq Khan, borgarstjóra Lundúna.Khan hafði sagt að Bretar ættu ekki að rúlla út rauða dreglinum fyrir Trump. Forsetinn brást við með því að segja að Khan hefði staðið sig hræðilega í embætti og ætti frekar að einbeita sér að því að uppræta glæpi í borginni en að tala illa um mikilvægasta bandamann Breta.Í dag hittir Trump Theresu May forsætisráðherra í Downingstræti en búist er við því að þau ræði meðal annars loftslagsbreytingar og málefni kínverska tæknirisans Huawei.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.