Erlent

Kim Kielsen hélt velli á Grænlandi

Kristján Már Unnarsson skrifar
Kim Kielsen í viðtali við Stöð 2 á fundi forsætisráðherra Norðurlandanna í Hörpu í Reykjavík í síðustu viku.
Kim Kielsen í viðtali við Stöð 2 á fundi forsætisráðherra Norðurlandanna í Hörpu í Reykjavík í síðustu viku. Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Kim Kielsen, leiðtogi Grænlands, stóð af sér vantrauststillögu eigin flokksmanna innan Siumut-flokksins í dag og heldur því velli sem bæði formaður flokksins og forsætisráðherra landsins, að því er fram kom í fréttum Stöðvar 2.

Sex af tíu þingmönnum Siumut, auk eins ráðherra, höfðu gert uppreisn gegn Kim og vildu að hann yrði settur af sem formaður fyrir að fylgja ekki stefnumálum flokksins, meðal annars við ákvörðun fisk- og hvalveiðikvóta.

Á sérstökum fundi miðstjórnar Siumut-flokksins í dag reyndist Kim hins vegar njóta yfirgnæfandi stuðnings flokksdeilda. Þrjátíuogfjórar af fjörutíu héraðsdeildum Siumut vildu að Kim sæti áfram og kom því ekki til þess að boðað yrði til auka flokksþings til að kjósa nýjan formann.

Kim Kielsen í sal grænlenska þingsins í Nuuk.Vísir/EPA.
Kim Kielsen hefur verið í sviðsljósinu þennan mánuðinn í kringum fréttir af áhuga Donalds Trumps á að kaupa Grænland. Kim gaf þá afdráttarlausa yfirlýsingu um að Grænland væri ekki til sölu.

Sjá hér: Grænland er ekki til sölu.

Til stóð að hann hitti Bandaríkjaforseta í Kaupmannahöfn í byrjun september en Trump aflýsti þeirri heimsókn eftir að Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, hafði lýst hugmyndinni um sölu Grænlands sem fáránlegri.

Kim Kielsen tók á móti Lars Løkke Rasmussen á flugvellinum í Nuuk síðastliðið haust þegar þáverandi forsætisráðherra Danmerkur kom til að undirrita flugvallasamninginn.Mynd/TV-2, Danmörku.
Kim stóð einnig í stórræðum síðastliðið haust þegar hann samdi við dönsk stjórnvöld um stórfellda uppbyggingu flugvallakerfis Grænlands. Samningurinn leiddi til stjórnarslita en Kim tókst að mynda minnihlutastjórn og tryggja þingmeirihluta að baki flugvallagerðinni. 

Hann tók við forsætisráðherrastólnum og formennsku í Siumut-flokknum af Alequ Hammond haustið 2014. Hann starfaði áður sem lögreglumaður en sneri sér að stjórnmálum árið 2005 og var þá kjörinn á grænlenska þingið. Hann er 52 ára gamall.


Tengdar fréttir

Farinn á hreindýraveiðar í miðri stjórnarkreppu

Meðan upplausn ríkir í stjórnmálum Grænlands er formaður landsstjórnarinnar, Kim Kielsen, farinn til fjalla á hreindýraveiðar og ekki væntanlegur til baka fyrr en undir næstu helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×