Erlent

Heræfing nærri Hong Kong

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Á flugvellinum í Hong Kong. ­
Á flugvellinum í Hong Kong. ­ Nordicphotos/AFP
Hundruð kínverskra herlögreglumanna settu á svið heræfingu á íþróttaleikvangi í tækniborginni Shenzhen í gær, skammt frá sjálfstjórnarhéraðinu Hong Kong. Reut­ers greindi frá málinu og sagði bandaríska utanríkisráðuneytið hafa áhyggjur af möguleikanum á því að auðvelt væri nú að senda herliðið yfir til Hong Kong til þess að taka á mótmælaöldunni sem riðið hefur yfir borgina undanfarna mánuði.

Stjórnvöld á meginlandi Kína hafa ítrekað lýst yfir óánægju sinni með mótmælin. Hafa þau farið fram á að borgaryfirvöld geri það að algeru forgangsatriði að koma daglegu lífi í eðlilegt horf á ný.

Mótmælin snerust upphaflega um andstöðu við frumvarp stjórnvalda um að heimila framsal til Kína. Eftir að frumvarpið var kæft hafa mótmælendur krafist rannsókna á meintu lögregluofbeldi, að handteknir mótmælendur verði leystir úr haldi og afsagnar æðsta embættismannsins Carrie Lam. Mikið fór fyrir því um síðustu helgi þegar mótmælendur tóku yfir alþjóðaflugvöll borgarinnar, án ofbeldis þó, og var flugi aflýst vegna þess.




Tengdar fréttir

Mótmælin í Hong Kong verða ofbeldisfyllri

Enn ein átökin brutust út milli lögreglu og mótmælanda í Hong Kong í dag en mótmælin hafa farið reglulega fram síðastliðnar tíu vikur. Lögreglan veitti ekki leyfi fyrir fjöldasamkomu eða kröfugöngu um helgina en mótmælendur létu það ekki á sig fá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×