Erlent

Átök lögreglu og mótmælenda á flugvellinum í Hong Kong

Kjartan Kjartansson skrifar
Annan daginn í röð hafa mótmælendur lagt undir sig flugvöllinn í Hong Kong.
Annan daginn í röð hafa mótmælendur lagt undir sig flugvöllinn í Hong Kong. Vísir/EPA
Til átaka kom á milli lögreglumanna og mótmælenda á alþjóðaflugvellinum í Hong Kong í kvöld. Flugferðum var aflýst annan daginn í röð vegna mótmælanna. Átökin eru sögð hafa brotist út eftir að særð manneskja var flutt út úr flugvallarbyggingunni.

Óeirðarlögreglan lét til skarar skríða og beitti piparúða gegn mótmælendum sem höfðu hindrað för lögreglubíl, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Mótmælendurnir komu einnig upp tálmum á göngum flugvallarins með kerrum og öðrum munum.

Breska ríkisútvarpið BBC birtir myndband sem virðist sýna mótmælendur króa af lögreglumann og berja hann. Félagar lögreglumannsins komu honum til bjargar en ekki er vitað um ástand hans.

Reiði hefur gætt á meðal mótmælenda í garð lögreglunnar, ekki síst eftir að ung kona var skotin, að því er virðist með gúmmíkúlu lögreglunnar, í augað á sunnudag. Margir mótmælendur hafa gengið um með blóðlitaðan augnlepp með vísan í áverka konunnar í dag.

Mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna hvatti stjórnvöld í Hong Kong til að sýna stillingu í viðbrögðum sínum við mótmælunum og að rannsaka mögulega brot lögreglunnar á alþjóðlegum lögum þegar hún skaut táragasi á mótmælendur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×