Enski boltinn

Solskjær staðfestir að Sanchez verði áfram hjá félaginu og segir sögurnar um varaliðið bull

Anton Ingi Leifsson skrifar
Alexis Sanchez verður áfram hjá Man. Utd.
Alexis Sanchez verður áfram hjá Man. Utd. vísir/getty

Allar líkur eru á því að Alexis Sanchez verði áfram í herbúðum Manchester United en lengi vel í sumar var búist við því að hann myndi yfirgefa félagið í sumarglugganum.

Frá þessu greindi Ole Gunnar Solskjær, stjóri United, á blaðamannafundi í dag en sögusagnir um brottför Sanchez hafa verið á vörum flestra í allt sumar.

„Alexis er mikill atvinnumaður. Hann kemur og leggur hart að sér á hverjum degi, mjög hart. Hann vill vera partur af þessu,“ sagði Norðmaðurinn á blaðamannafundinum fyrir leikinn gegn Wolves á mánudag.

Á dögunum barst frétt þess efnis að Solskjær vildi ekki hafa Sanchez lengur hjá Man. Utd og hótaði því að senda hann í varaliðið. Norðmaðurinn segir að það sé þvæla.

„Það hafa verið sögur að hann verði settur í varaliðið - auðvitað hefur það ekki gerst. Hann er hluti af hópnum og góður leikmaður. Hann er aðeins á eftir öðrum en er að nálgast að verða hluti af þessu,“ en Sanchez hefur glímt við meiðsli.

„Við höfum ekki mikla breidd fram á við svo hann gæti endað með að spila fleiri leiki en þið reiknið með. Við vonumst eftir því að hann komi vel inn. Hann er gæða leikmaður.“

Leikur Wolves og Manchester United fer fram á mánudagskvöldið en Sanchez hefur ekki fundið þjölina hjá United frá því að hann gekk í raðir liðsins frá Arsenal í janúar 2018.

Síðan eru liðnir átján mánuðir og uppskera Alexis Sanchez eru 4 mörk í 45 leikjum en hann er ekki á neinum lúseralaunum. Hann fær rúm 500 þúsund pund á viku.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.