Enski boltinn

Sonur Ole Gunnar Solskjær spilar á móti Manchester United í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ole Gunnar Solskjær með Noah son sinn eftir að hann varð Englandsmeistari með Manchester United árið 2001. Það var fjórði meistaratitilinn af sex sem Ole Gunnar vann með Manchester United.
Ole Gunnar Solskjær með Noah son sinn eftir að hann varð Englandsmeistari með Manchester United árið 2001. Það var fjórði meistaratitilinn af sex sem Ole Gunnar vann með Manchester United. Getty/StuForster /Allsport
Noah Solskjaer, 19 ára sonur Ole Gunnar Solskjær, spilar væntanlega sinn fyrsta leik með Kristiansund í kvöld. Svo vill til að leikurinn er á móti Manchester United.

Manchester United mætir Kristiansund í dag í næst síðasta undirbúningsleik sínum fyrir tímabilið en leikurinn fer fram á Ullevaal Stadion í Osló.

Ole Gunnar Solskjær fæddist í Kristiansund og hóf ferillinn með Clausenengen sem er lið frá bænum. Hann fór síðan þaðan til Molde og varð síðan orðinn leikmaður Manchester United 23 ára gamall.

Solskjær snéri síðan aftur til Molde og var þjálfari liðsins þegar kallið kom frá Old Trafford. Hann tók fyrst við til bráðabrigða í desember 2018 en var síðan fastráðinn undir lok síðasta tímabils. Ole Gunnar er nú á sínu fyrsta undirbúningstímabili sem knattspyrnustjóri Manchester United. Hann er nú kominn með lið sitt heim til  Noregs og fær nú tækifæri til að stýra því á móti stráknum sínum.

Noah Solskjaer er í hópnum fyrir leik Kristiansund á móti Manchester United í kvöld. Leikurinn hefst 17.00 að íslenskum tíma.





Noah Solskjær hefur enn ekki náð að spila fyrir aðallið Kristiansund en á að baki þrettán leiki með b-liði félagsins. Noah spilar ekki í fremstu víglínu eins og faðir sinn heldur inn á miðjunni.

„Faðir hans var betri eftir því sem hann komst nærri vítateignum en Noah er meira leikmaður sem er að setja upp sóknir síns liðs,“ sagði Christian Michelsen, þjálfari Kristiansund.

„Hann hefur mikla hæfileika og er með góðan skilning á fótbolta. Noah hefur farið í gegnum góðan skóla,“ sagði Michelsen.

Noah sjálfur sagði það í viðtali nýlega að hann byggi ekki leik sinn á leik föðurs síns heldur horfi hann meira til leikmanns eins og Michael Carrick, fyrrum leikmanns Manchester United.

„Ég er miklu meira sexa á miðjunni heldur en tía. Það væri gaman að fá að spila í þessum leik. Ég er búinn að sjá svo marga svona stórleiki að ég er orðinn vanur þeim,“ sagði Noah Solskjær en BBC segir frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×