Enski boltinn

Mané fær stutt sumarfrí: Snýr aftur til Liverpool eftir leikinn um Samfélagsskjöldinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mané skoraði 26 mörk í öllum keppnum á síðasta tímabili.
Mané skoraði 26 mörk í öllum keppnum á síðasta tímabili. vísir/epa
Sadio Mané mætir aftur til æfinga hjá Liverpool eftir leik liðsins gegn Manchester City um Samfélagsskjöldinn í byrjun næsta mánaðar.

Mané lék með Senegal í Afríkukeppninni í Egyptalandi sem lauk í síðustu viku. Senegalar komust alla leið í úrslit þar sem þeir töpuðu fyrir Alsíringum, 1-0, á föstudaginn. Mané skoraði þrjú mörk í Afríkukeppninni.

Mané er nú kominn í langþráð vikna frí. Það er þó ekki langt því hann snýr aftur til Liverpool 5. ágúst, degi eftir leikinn um Samfélagsskjöldinn á Wembley.

Föstudaginn 9. ágúst tekur Liverpool á móti Norwich City í upphafsleik tímabilsins í ensku úrvalsdeildinni. Miðvikudaginn 14. ágúst mætir Liverpool svo Chelsea í Ofurbikar Evrópu í Istanbúl í Tyrklandi.

Mané skoraði 22 mörk í ensku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili og var markahæsti leikmaður hennar ásamt samherja sínum hjá Liverpool, Mohamed Salah, og Arsenal-manninum Pierre-Emerick Aubameyang.

Alls hefur Mané skorað 59 mörk í 123 leikjum fyrir Liverpool. Hann skoraði í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu 2018 og fiskaði víti í úrslitaleiknum 2019 þar sem Liverpool vann Tottenham með tveimur mörkum gegn engu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×