Fótbolti

Sadio Mané: Væri til í að skipta á Meistaradeildarsigrinum og sigri í Afríkukeppninni í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sadio Mané með Meistaradeildarbikarinn.
Sadio Mané með Meistaradeildarbikarinn. Getty/Etsuo Hara

Sadio Mané varð Evrópumeistari með Liverpool 1. júní síðastliðinn en leikurinn í kvöld skiptir Senegalann meira máli en leikurinn á móti Tottenham í Madrid.

Sadio Mané og félagar í landsliði Senegal spila í kvöld til úrslita í Afríkukeppni landsliða og er mótherjinn Alsír.

Senegal hefur aldrei náð að verða Afríkumeistari landsliða og öll þjóðin verður á nálum í kvöld.

Sadio Mané hefur skorað þrjú mörk í fimm byrjunarliðsleikjum sínum í keppninni.


„Engin spurning. Ég væri til í að skipta á Meistaradeildarsigrinum og sigri í Afríkukeppninni í kvöld,“ sagði Sadio Mane við breska ríkisútvarpið.

„Vonandi þarf ég ekki að skipta ef við vinnum vonandi þennan úrslitaleik,“ bætti Mane við.

„Við vitum að þetta verður ekki auðveldur leikur en það er bara eðlilegt. Alsír er með frábært lið og ég hlakka bara til að fá að spila úrslitaleik og reyna að vinna titilinn í fyrsta sinn fyrir mína þjóð,“ sagði Mané.

Senegal verður án varnarmannsins öfluga Kalidou Koulibaly í þessum leik en hann tekur út leikbann vegna tveggja gulra spjalda. Afríska knattspyrnusambandið er enn með þá vitlausu reglu að leikmenn geti misst af úrslitaleikjum vegna gulra spjalda.lsír getur unnið Afríkukeppnina í annað skiptið en Alsír vann hana í fyrsta og eina skiptið fyrir 29 árum eða árið 1990. Alsír vann þá 1-0 sigur á Nígeríu í úrslitaleiknum. Alsír hefur ekki komist í úrslitaleikinn síðan.

„Ég vil segja alsírska fólkinu eftirfarandi: Ég er ekki pólitíkus, kraftaverkamaður eða töframaður. Ég lofa ykkur hins vegar að við munum berjast eins og við höfum gert hingað til í mótinu,“ sagði Djamel Belmadi, þjálfari alsírska landsliðsins.

Alsír hefur átt frábært mót og er sigurstranglegra í leiknum í kvöld. Liðið vann 1-0 sigur á Senegal þegar liðin mættust í riðlakeppni mótsins. Senegal sló út Úganda, Benín og Túnis á leið sinn í úrslitaleikinn en Alsír sló út Gíneu, Fílabeinsströndina og Nígeríu á leið sinni í úrslit.

Úrslitaleikurinn í kvöld fer framá Cairo International Stadium í Kaíró í Egyptalandi og hefst klukkan 19.00 að íslenskum tíma.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.