Erlent

Íhuga vantrauststillögu á forystu Corbyn

Kjartan Kjartansson skrifar
Corbyn hefur átt undir högg að sækja. Þrátt fyrir glundroða ríkisstjórnar Íhaldsflokkurinn mælist stuðningur við Verkamannaflokk hans í lægstu lægðum.
Corbyn hefur átt undir högg að sækja. Þrátt fyrir glundroða ríkisstjórnar Íhaldsflokkurinn mælist stuðningur við Verkamannaflokk hans í lægstu lægðum. Vísir/Getty
Lávarðar í Verkamannaflokkinum eru nú sagðir íhuga að greiða atkvæði um vantraust á Jeremy Corbyn, leiðtoga flokksins, vegna viðbragða hans við ásökunum um gyðingahatur flokksmanna. Tillagan verður rædd á neyðarfundi á mánudag eftir að einn gagnrýnenda Corbyn var rekinn sem skuggaráðherra Brexit-mála.

Corbyn og Verkamannaflokkurinn hafa sætt gagnrýni fyrir að taka ásakanir um að gyðingaandúð þrífist innan flokksins ekki alvarlega. Hayter barónessa, sem var skuggaráðherra Brexit-mála, var rekin á dögunum en hún hefur verið gagnrýnin á Corbyn vegna málsins.

Breska ríkisútvarpið BBC segir að lávarðarnir í flokknum ætli að ræða mögulega vantrauststillögu á neyðarfundinum á mánudag. Samþykki þeir hana fer fram allsherjaratkvæðagreiðsla hjá lávörðunum um hana. Yrði vantraust ofan á hefði það ekki bindandi áhrif á stöðu Corbyn.

Hayter barónessa var ein fjögurra lávarða sem skrifuðu Corbyn bréf og hvöttu hann til að rannsaka ásakanir um að háttsettir embættismenn flokksins hefðu haft afskipti af meðferð siðanefndar hans á fullyrðingum um gyðingahatur. Líkti hún nálgun ráðgjafa Corbyn við Adolf Hitler á síðustu dögum sínum.

Talsmaður Verkamannaflokksins segir að Hayter hafi verið rekin sem skuggaráðherra vegna ummælanna sem hafi verið afar móðgandi fyrir Corbyn. Hún verður áfram varaleiðtogi flokksins í lávarðadeild þingsins.


Tengdar fréttir

Lávarðar hætta í flokknum vegna meints gyðingahaturs

Jeremy Corbyn tekst enn á við meinta gyðingaandúð sem sögð er rótgróin í breska Verkamannaflokknum. Þrír úr lávarðadeild breska þingsins sögðu sig úr flokknum í gær. Illa hefur gengið hjá Corbyn að taka á málinu. Hefur sjálfur komist í klandur vegna gamalla ummæla sinna um Hamas-samtökin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×