Erlent

Ætlar að hringja í „hinn hæfileikaríka“ forsætisráðherra Svíþjóðar til að fá A$AP Rocky lausan

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Trump á fundi með Kanye West í Hvíta húsinu í fyrra. Hingað til hefur farið vel á með þeim kumpánum, og virðist West ætla að nýta sér velvild forsetans til að fá vin sinn lausan úr fangelsi.
Trump á fundi með Kanye West í Hvíta húsinu í fyrra. Hingað til hefur farið vel á með þeim kumpánum, og virðist West ætla að nýta sér velvild forsetans til að fá vin sinn lausan úr fangelsi. Vísir/Getty

Donald Trump Bandaríkjaforseti hyggst setja sig í samband við Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, og reyna að fá bandaríska rapparann A$AP Rocky lausan úr fangelsi í Stokkhólmi. Rapparinn var handtekinn í byrjun júlí grunaður um líkamsárás.

Sjá einnig: Krefjast þess að fá að halda A$AP Rocky lengur í gæsluvarðhaldi

Trump greindi frá fyrirætlunum sínum í færslu á Twitter í kvöld. Þar sagðist forsetinn nýbúinn að ræða málið við Kanye West, annan bandarískan rappara, en þeim West og A$AP Rocky er vel til vina. Það virðist því að tilstuðlan West sem Trump ætlar að beita sér í málinu.

„Ég ætla að hringja í hinn hæfileikaríka forsætisráðherra Svíþjóðar til að kanna hvað hægt sé að gera varðandi það að hjálpa A$AP Rocky. Fjölda fólks þætti vænt um að málið hlyti farsælan endi!“ sagði Trump í færslu sinni.A$AP Rocky er sakaður um að hafa ráðist á mann í Stokkhólmi þann 30. júní síðastliðinn ásamt tveimur öðrum mönnum. Hann, ásamt mönnunum tveimur, hefur verið í haldi lögreglu í Svíþjóð síðan í byrjun júlí vegna gruns um líkamsárás.

Í dag var greint frá því að dómari hefði fallist á beiðni saksóknara um að gæsluvarðhald yfir rapparanum og meintum samverkamönnum hans yrði framlengt um eina viku. Var krafan byggð á því að rapparinn myndi yfirgefa Svíþjóð áður en hægt yrði að rannsaka málið betur.

Melania færði honum fréttirnar

Fjallað er um málið á vef SVT í kvöld og vísað í ummæli Trumps á blaðamannafundi í Hvíta húsinu í dag. Þar þakkaði hann forsetafrúnni Melaniu Trump fyrir að hafa vakið athygli sína á máli A$AP Rocky.

„Svíþjóð er frábært land og þeir [Svíar] eru vinir mínir,“ sagði Trump og bætti við að fulltrúar bandarísku ríkisstjórnarinnar hefðu þegar sett sig í samband við yfirvöld í Svíþjóð.

Þá bauð forsetinn Melaniu sjálfri að ávarpa blaðamenn vegna málsins. Hún sagði að þau hjónin, í samstarfi við utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna, ynnu nú að því að koma rapparanum heim fljótlega.

A$AP Rocky hefur verið í varðhaldi í Svíþjóð síðan 3. júlí síðastliðinn. Vísir/Getty

Greint var frá því í vikunni að Kanye West og eiginkona hans, athafnakonan Kim Kardashian, hefðu rætt mál A$AP Rocky við við Jared Kushner, tengdason forsetans og einn nánasta ráðgjafa hans, í viðleitni til að vekja athygli Trumps á málinu og fá rapparann lausan úr fangelsi.

Kardashian kom á framfæri þökkum til Kushner, Trumps og Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, vegna málsins í gær.
Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.