Erlent

Stefna ráðuneyti og skattinum um skattskýrslur Trump forseta

Kjartan Kjartansson skrifar
Steve Mnuchin, fjármálaráðherra, (t.v:) er á meðal þeirra sem stefna þingnefndarinnar er stíluð á.
Steve Mnuchin, fjármálaráðherra, (t.v:) er á meðal þeirra sem stefna þingnefndarinnar er stíluð á. Vísir/EPA
Fjárlaganefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings stefndi í dag fjármálaráðuneytinu og skattstofunni og krefst þess að fá aðgang að skattskýrslum Donalds Trump forseta. Trump og Hvíta húsið hafa barist hatrammlega gegn því að þingið fái aðgang að upplýsingum um fjármál hans sem forsetinn hefur staðfastlega neitað að gera opinberar.

Fjármálaráðuneytið hafnaði beiðni og síðar stefnu fjárlaganefndarinnar um aðgang að skattskýrslunum. Nefndin byggði á ákvæði laga sem heimila henni að óska eftir skattskýrslum einstaklinga. Dómsmálaráðuneyti Trump færði meðal annars þau rök fyrir því að fjármálaráðuneytinu bæri að hafna stefnunni að þingið hefði ekki lögmæta ástæðu til að krefjast gagnanna.

Demókratar fara með meirihluta í fulltrúadeildinni og fjárlaganefndinni. Washington Post segir að í stefnunni saki þeir ríkisstjórn Trump um „ótrúlega árás“ á valdheimildir þingsins með því að neita að afhenda skattskýrslurnar.

Trump hunsaði áratugalangt fordæmi fyrir því að forsetaframbjóðendur birtu skattskýrslur sínar þegar hann bauð sig fram árið 2016. Bar hann því við að hann gæti ekki opinberað skýrslunnar þar sem skattayfirvöld hefðu þær til endurskoðunar þrátt fyrir að þau gæfu út að ekkert væri því til fyrirstöðu að Trump birti skýrslurnar.

Síðan þá hefur Trump sagt ráðgjöfum sínum að hann sé tilbúinn að fara með málið alla leið fyrir Hæstarétt Bandaríkjanna til að komast hjá því að þurfa að opinbera fjármál sín.

Forsetinn hefur verið gagnrýndur fyrir ógegnsæi varðandi persónuleg fjármál sín. Ólíkt fyrri forsetanum sleit hann ekki öll tengsl við viðskiptaveldi sitt þegar hann tók við embætti forseta heldur fól sonum sýnum að stýra því. Hann hagnast enn persónulega á rekstri fyrirtækjanna.

Það hefur vakið upp spurningar um mögulega hagsmunaárekstra og spillingu, ekki síst hvað varðar viðskipti erlendra ríkja við fyrirtæki forsetans. Ýmis ríki hafa beint viðskiptum sínum til fyrirtækja Trump, þar á meðal alþjóðahóteli hans í Washington-borg.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×