Erlent

Saka dómsmálaráðherra Bandaríkjanna um vanvirðingu gagnvart þinginu

Samúel Karl Ólason skrifar
William Barr, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna.
William Barr, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna. AP/Andrew Harnik

Meðlimir dómsmálanefndar fulltrúadeildar Bandaraþings hafa ákveðið að saka William Barr, dómsmálaráðherra, um að sýna þinginu vanvirðingu. Það hafi hann gert með því að verða ekki við stefnu nefndarinnar um að afhenda þingmönnum nefndarinnar skýrslu Robert Mueller í heild sinni og án útstrikana auk allra gagna Rússarannsóknarinnar svokölluðu.

Atkvæðagreiðslan fór eftir flokkslínum þar sem 24 þingmenn Demókrataflokksins greiddu atkvæði með tillögunni og 16 þingmenn Repúblikanaflokksins gegn henni.

Tillagan fer fyrir fulltrúadeildina í heild sinni á næstu dögum.

Fyrr í dag hafði Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, krafist trúnaðar um skýrsluna en mikil barátta geisar nú á milli Demókrata í fulltrúadeild Bandaríkjaþings og Hvíta hússins. Demókratar eru að beita ýmsum leiðum til að rannsaka Trump og ríkisstjórn hans og Hvíta húsið hefur meinað vitnum að ræða við þingmenn og komið í veg fyrir afhendingu gagna.

Sjá einnig: Meina fyrrverandi lögfræðingi Hvíta hússins að starfa með þingmönnum

Jerrold Nadler, formaður dómsmálanefndarinnar, segir viðræður við Dómsmálaráðuneytið ekki hafa skilað árangri og því sé málið aftur komið á byrjunarreit. Hann segir starfsmenn Hvíta hússins fara fram með fordæmalausum hætti við að hindra eftirlitsskyldu þingsins.

„Enginn, og sérstaklega ekki æðsti yfirmaður dómsmála í landinu, getur komist upp með það að hunsa vilja þingsins og löglega stefnu,“ hefur Politico eftir Nadler.

Hann sagði einnig að Demókrötum þætti þessar aðgerðir ekki jákvæðar en þeir ættu engra kosta val og vísaði hann til „einræðistilburða“ Trump.

Í yfirlýsingu frá Dómsmálaráðuneytinu segir að atkvæðagreiðsla nefndarinnar sé til komin vegna pólitíkur og hún sé óþörf. AP fréttaveitan hefur eftir Kerri Kupec, talskonu ráðuneytisins, að um „óviðeigandi og leikræna“ tilburði sé að ræða.

Þá sagði hún Barr hafa gert gífurlega mikið til að segja þingmönnum og almenningi frá rannsókn Robert Mueller.

Við það má bæta að Barr hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir það hvernig hann hefur sagði frá niðurstöðum Rússarannsóknarinnar, mörgum vikum áður en hann opinberaði skýrsluna með miklum útstrikunum. Hann hefur jafnvel verið sakaður um að hafa logið að þingmönnum.

Sjá einnig: Þingforsetinn sakar Barr um lygar

Dómsmálanefndin hefur einnig skoðað það að fá Robert Mueller sjálfan á fund nefndarinnar. Barr sagði upprunalega að hann væri ekki mótfallinn því. Það var áður en Trump sagði það ekki koma til greina. Ekki liggur fyrir hvernig trúnaðarkrafa Trump mun hafa áhrif á það. Hins vegar er búist við því að Mueller muni hætta hjá Dómsmálaráðuneytinu á næstu vikum og þá gæti krafa Trump ekki náð yfir hann.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.