Erlent

Dómari taldi heilsu fólks vega þyngra en rétturinn til að ferðast með bíl

Kjartan Kjartansson skrifar
Þúsundir Madridarbúa gengu til varnar bílabanninu í vikunni.
Þúsundir Madridarbúa gengu til varnar bílabanninu í vikunni. Vísir/EPA

Dómstóll í Madrid á Spáni sneri við ákvörðun borgarstjóranar um að afnema bann við bílaumferð í miðborginni eftir fjölmenn mótmæli í vikunni. Mengun í miðborginni rauk upp eftir að borgarstjórnin afnam bannið í byrjun vikunnar.

Manuela Carmena, vinstrikonan sem var borgarstjóri þar til í júní lagði bannið á í nóvember. Tilgangurinn var að draga úr mengun í borginni þannig að hún stæðist reglur Evrópusambandsins. Bannið fól í sér að ökumenn sem óku inn í svonefnt láglosunarsvæði í miðborginni voru sektaðir.

Bannið virtist bera árangur því á þeim sjö mánuðum sem það var í gildi mældist loftmengun í borginni sú minnsta í áratug, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

José Luis Martínez-Almeida, frá hægriflokknum Lýðflokknum sem tók við af Carmena um miðjan júní, felldi bannið úr gildi. Mengun mældist þá strax meiri frá því sem verið hafði á meðan bannið var í gildi.

Þúsundir borgarbúa mótmæltu viðsnúningi nýju borgarstjórnarinnar og Sósíalistaflokkurinn skaut ákvörðuninni til dómstóla. Þar komst dómari að þeirri niðurstöðu að heilsa borgarbúa væri mikilvægari en rétturinn til að ferðast með bíl. Sneri hann því ákvörðuninni við.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.