Erlent

Vill hleypa glæðum í viðræður um kjarnorkuafvopnun á ný

Eiður Þór Árnason skrifar
Á leiðtogafundi Kim Jong-un og Xi Jinping ræddu þeir meðal annars um stöðuna í viðræðum um kjarnorkuafvopnun. Ljósmyndin er frá fyrri heimsókn Kim í Kína.
Á leiðtogafundi Kim Jong-un og Xi Jinping ræddu þeir meðal annars um stöðuna í viðræðum um kjarnorkuafvopnun. Ljósmyndin er frá fyrri heimsókn Kim í Kína. Vísir/ap
Xi Jinping forseti Kína heimsækir nú Norður-Kóreu og hafa leiðtogar ríkjanna meðal annars rætt efnahagsmál og stöðu Kóreuskagans. Um er að ræða fyrstu opinberu heimsókn kínverskra stjórnvalda til Norður-Kóreu frá árinu 2005 og um leið fyrstu heimsókn Xi Jinping, sem tók við völdum árið 2012. Fréttastofa AP greinir frá þessu.

Xi Jinping vonast til að kjarnorkuviðræður Norður-Kóreu við Bandaríkjamenn verði teknar upp aftur og að þær leiði til farsæls samkomulags. Hann hrósaði um leið aðgerðum norðurkóreskra stjórnvalda sem miða í átt að kjarnorkuafvopnun.

Donald Trump, Bandaríkjaforseti og Kim Jong-un funduðu síðast í febrúar og áttu í viðræðum um afvopnun Kóreuskagans. Þær reyndust með öllu árangurslausar. Þetta er í fyrsta sinn sem leiðtogar Norður-Kóreu og Kína koma saman til fundar eftir að viðræður við Trump runnu út í sandinn.

Xi Jinping lét hafa eftir sér í heimsókninni að núverandi staða á Kóreuskaga varði frið og stöðuleika í heimshlutanum.

Tímasetning heimsóknarinnar hefur vakið athygli í ljósi þess að eftir viku mun forseti Kína halda á leiðtogafund G20-ríkjanna í Japan þar sem hann mun meðal annars funda með Bandaríkjaforseta.

Kína er helsta viðskiptaþjóð Norður-Kóreu. Talið er að markmið kínverskra stjórnvalda með heimsókninni sé að styrkja samband þeirra við Kim Jong-un en hann á sér núorðið fáa bandamenn.

Kínverskur ríkismiðill greinir frá því að stærðarinnar móttökunefnd hafi tekið á móti forsetanum á flugvellinum í Pyongyang fyrr í dag. Hin opinbera heimsókn mun standa yfir í tvo daga.

Klippa: Heimsókn Xi Jinping til Norður Kóreu

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×