Erlent

Vill hleypa glæðum í viðræður um kjarnorkuafvopnun á ný

Eiður Þór Árnason skrifar
Á leiðtogafundi Kim Jong-un og Xi Jinping ræddu þeir meðal annars um stöðuna í viðræðum um kjarnorkuafvopnun. Ljósmyndin er frá fyrri heimsókn Kim í Kína.
Á leiðtogafundi Kim Jong-un og Xi Jinping ræddu þeir meðal annars um stöðuna í viðræðum um kjarnorkuafvopnun. Ljósmyndin er frá fyrri heimsókn Kim í Kína. Vísir/ap

Xi Jinping forseti Kína heimsækir nú Norður-Kóreu og hafa leiðtogar ríkjanna meðal annars rætt efnahagsmál og stöðu Kóreuskagans. Um er að ræða fyrstu opinberu heimsókn kínverskra stjórnvalda til Norður-Kóreu frá árinu 2005 og um leið fyrstu heimsókn Xi Jinping, sem tók við völdum árið 2012. Fréttastofa AP greinir frá þessu.

Xi Jinping vonast til að kjarnorkuviðræður Norður-Kóreu við Bandaríkjamenn verði teknar upp aftur og að þær leiði til farsæls samkomulags. Hann hrósaði um leið aðgerðum norðurkóreskra stjórnvalda sem miða í átt að kjarnorkuafvopnun.

Donald Trump, Bandaríkjaforseti og Kim Jong-un funduðu síðast í febrúar og áttu í viðræðum um afvopnun Kóreuskagans. Þær reyndust með öllu árangurslausar. Þetta er í fyrsta sinn sem leiðtogar Norður-Kóreu og Kína koma saman til fundar eftir að viðræður við Trump runnu út í sandinn.

Xi Jinping lét hafa eftir sér í heimsókninni að núverandi staða á Kóreuskaga varði frið og stöðuleika í heimshlutanum.

Tímasetning heimsóknarinnar hefur vakið athygli í ljósi þess að eftir viku mun forseti Kína halda á leiðtogafund G20-ríkjanna í Japan þar sem hann mun meðal annars funda með Bandaríkjaforseta.

Kína er helsta viðskiptaþjóð Norður-Kóreu. Talið er að markmið kínverskra stjórnvalda með heimsókninni sé að styrkja samband þeirra við Kim Jong-un en hann á sér núorðið fáa bandamenn.

Kínverskur ríkismiðill greinir frá því að stærðarinnar móttökunefnd hafi tekið á móti forsetanum á flugvellinum í Pyongyang fyrr í dag. Hin opinbera heimsókn mun standa yfir í tvo daga.

Klippa: Heimsókn Xi Jinping til Norður Kóreu

Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.