Erlent

Trump gerir lítið úr vopnabrölti Norður-Kóreumanna

Kjartan Kjartansson skrifar
Heimsókn Trump í Japan hófst á golfhring með Abe forsætisráðherra.
Heimsókn Trump í Japan hófst á golfhring með Abe forsætisráðherra. Vísir/EPA
Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur enn og aftur tekið upp hanskann fyrir Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu. Lýsir hann nýjustu eldflaugatilraunum Norður-Kóreumanna sem „litlum vopnum“ og lofar þá fyrir að gera lítið úr Joe Biden, fyrrverandi varaforseta Bandaríkjanna og líklegum andstæðingi Trump í forsetakosningum næsta árs.John Bolton, þjóðaröryggisráðgjafi Trump, fordæmdi nýlegar eldflaugatilraunir Norður-Kóreu og sagði þær brjóta gegn ályktunum Sameinuðu þjóðanna í gær.Trump virtist vísa þeim áhyggjum á bug í tísti sem hann sendi frá sér skömmu eftir að hann kom í opinbera heimsókn til Japans. Gestgjafi hans, Shinzo Abe, forsætisráðherra, hafði einnig lýst áhyggjum af vopnabrölti Norður-Kóreumanna í síðustu viku, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.„Norður-Kórea skaut nokkrum litlum vopnum, sem hafa valdið einhverju af fólkinu mínu áhyggjum, en ekki mér. Ég hef trú á því að Kim formaður muni halda loforð sitt til mín,“ tísti Bandaríkjaforseti.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Trump forseti kemur leiðtoga Norður-Kóreu til varnar eða eys hann lofi. Trump hefur ítrekað lýst Kim sem afburðaskörpum leiðtoga. Á fundi þeirra í Singapúr í fyrra sagði Trump að norðurkóreska þjóðin elskaði Kim.Fyrr á þessu ári fríaði Trump Kim ábyrgð á meðferðinni á Otto Warmbier, bandarískum námsmanni, sem var fangelsaður í Norður-Kóreu. Warmbier lést skömmu eftir að honum var sleppt og leyft að fara til Bandaríkjanna en hann var þá í dái vegna alvarlegs heilaskaða sem hann hafði orðið fyrir í haldi stjórnvalda í Pjongjang.„Ég trúi ekki að hann [Kim] hefði leyft þessu að gerast. Það var ekki í hans hag. Þessi fangelsi eru erfið, erfiðir staðir og slæmir hlutir gerast. En ég trúi því í rauninni ekki að hann, ég trúi ekki að hann hafi vitað af því,“ sagði Trump á sameiginlegum blaðamannafundi hans og Kim í Víetnam þegar fréttamenn reyndu að spyrja þann síðarnefnda út í dauða Warmbier.Í tísti sínu í dag lýsti Bandaríkjaforseti einnig ánægju með að norðurkóresk stjórnvöld hefðu látið fúkyrðum rigna yfir Biden, fyrrverandi varaforseta. Biden er talinn líklegur til sigurs í forvali Demókrataflokksins fyrir forsetakosningarnar á næsta ári.„Ég brosti líka þegar hann kallaði mýrarmanninn Joe Biden einstakling með lága greindarvísitölu, og verra. Kannski er það að senda mér skilaboð?“ tísti Trump en í upphaflegri útgáfu þess stafsetti forsetinn ættarnafn Biden rangt.Ekki er ljóst hvað hann átti við með skilaboðin sem Kim gæti verið að senda honum.

Tengd skjöl


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.