Erlent

Hitametin falla á meginlandinu

Kjartan Kjartansson skrifar
Berlínarbúi reynir að kæla sig í gosbrunni í sumarhitanum þar.
Berlínarbúi reynir að kæla sig í gosbrunni í sumarhitanum þar. Vísir/EPA

Enn á að bæta í hitann á meginlandi Evrópu í dag eftir júnímet sem slegin voru í nokkrum löndum í gær. Búist er við um og yfir fjörutíu stiga hita sums staðar í dag og hafa frönsk yfirvöld gefið út viðvörun um að líf fólks geti verið í hættu vegna hitans.

Hitabylgja hófst fyrr í þessari viku. Í gær voru sett met fyrir hæsta hita í júnímánuði í Þýskalandi, Póllandi og Tékklandi. Í bænum Coschen í Brandenburg í Þýskalandi náði hitinn 38,6°C í gær. Í Radzyn í Póllandi og Doksany í Tékklandi sýndi hitamælirinn 38,2°C annars vegar og 38,9°C hins vegar.

Hitinn á að rísa enn frekar í mörgum löndum næstu þrjá daga, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Þannig gæti hitinn náð 45 gráðum á norðausturhluta Spánar á morgun. Varað er við verulegri hættu á skógareldum þar.

Í Frakklandi er appelsínugult viðvörunarstig vegna hitans í nær öllu landinu. Í París hafa sérstök kælisvæði fyrir íbúa verið skilgreind og bráðabirgðagosbrunnar og vatnshanar verið settir upp.

Vísindamenn eru tregir til að tengja einstaka veðuratburði við þær loftslagsbreytingar sem nú eiga sér stað á jörðinni af völdum manna. Hitabylgjur eins og sú sem nú gengur yfir Evrópu verða þó tíðari með hækkandi meðalhita jarðar.

Potsdam-loftslagsrannsóknastofnunin í Þýskalandi segir að fimm heitustu sumur í Evrópu frá árinu 1500 hafi öll verið á þessari öld.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.