Erlent

Hitametin falla á meginlandinu

Kjartan Kjartansson skrifar
Berlínarbúi reynir að kæla sig í gosbrunni í sumarhitanum þar.
Berlínarbúi reynir að kæla sig í gosbrunni í sumarhitanum þar. Vísir/EPA
Enn á að bæta í hitann á meginlandi Evrópu í dag eftir júnímet sem slegin voru í nokkrum löndum í gær. Búist er við um og yfir fjörutíu stiga hita sums staðar í dag og hafa frönsk yfirvöld gefið út viðvörun um að líf fólks geti verið í hættu vegna hitans.Hitabylgja hófst fyrr í þessari viku. Í gær voru sett met fyrir hæsta hita í júnímánuði í Þýskalandi, Póllandi og Tékklandi. Í bænum Coschen í Brandenburg í Þýskalandi náði hitinn 38,6°C í gær. Í Radzyn í Póllandi og Doksany í Tékklandi sýndi hitamælirinn 38,2°C annars vegar og 38,9°C hins vegar.Hitinn á að rísa enn frekar í mörgum löndum næstu þrjá daga, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Þannig gæti hitinn náð 45 gráðum á norðausturhluta Spánar á morgun. Varað er við verulegri hættu á skógareldum þar.Í Frakklandi er appelsínugult viðvörunarstig vegna hitans í nær öllu landinu. Í París hafa sérstök kælisvæði fyrir íbúa verið skilgreind og bráðabirgðagosbrunnar og vatnshanar verið settir upp.Vísindamenn eru tregir til að tengja einstaka veðuratburði við þær loftslagsbreytingar sem nú eiga sér stað á jörðinni af völdum manna. Hitabylgjur eins og sú sem nú gengur yfir Evrópu verða þó tíðari með hækkandi meðalhita jarðar.Potsdam-loftslagsrannsóknastofnunin í Þýskalandi segir að fimm heitustu sumur í Evrópu frá árinu 1500 hafi öll verið á þessari öld.

Tengd skjöl


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.