Erlent

Skólar í Frakklandi loka vegna hitabylgjunnar

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Hitastigið í Lyon í Frakklandi er ansi hátt þessa dagana.
Hitastigið í Lyon í Frakklandi er ansi hátt þessa dagana. Vísir/Getty
Yfirvöld í Essonne-héraði, rétt sunnan við París, í Frakklandi hafa brugðið á það ráð að loka skólum í héraðinu vegna hitabylgju sem geisar nú víðs vegar um Evrópu.

Um 50 skólum hefur verið lokað vegna hitabylgjunnar en spár gera ráð fyrir að hiti geti náð allt að 40 stigum á morgun.

Þá munu skólar í Val-de-Marne-héraði og Seine-et-Marne-héraði einnig loka vegna hitabylgjunnar.

Hitabylgjan teygir sig þó víðar en til Frakklands en gert er ráð fyrir að hitinn nái 45 stigum í norðausturhluta Spánar á föstudag. Heldur „kaldara“ er í Þýskalandi og á Ítalíu en þar helst hitinn undir 40 gráðu markinu.

Svisslendingar hafa ekki farið varhluta af hitabylgjunni en yfirvöld þar hafa gefið út tilmæli um að skólar skuli haldast opnir. Ekki sé hægt að ætlast til þess af vinnandi foreldrum að líta eftir börnum sínum á miðjum degi.

Frönsk yfirvöld hafa sökum þessa gríðarlega hita kyrrsett öll vélknúin farartæki nema þau sem menga allra minnst, en í heitu veðri þarf lítið til þess að rykský setjist yfir Parísarborg.

Rekja má tíðni hitabylgna til gróðurhúsaáhrifa af mannavöldum

Í kjölfar hitabylgjunnar hefur í evrópskum fjölmiðlum mikið verið rætt og ritað um hvort hægt sé að skella skuldinni á gróðurhúsaáhrifin svokölluðu.

Séu hitatölur aftur til seinni hluta átjándu aldar skoðaðar kemur í ljós að meðalhitastig jarðar hefur hækkað um það sem nemur nálægt einni gráðu síðan iðnbyltingin ruddi sér til rúms.

Þá sýna rannsóknir loftslagsfræðistofu í Potsdam í Þýskalandi að fimm heitustu sumur Evrópu frá árinu 1500 hafi öll verið á 21. öldinni. 


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.