Erlent

Mueller boðar yfirlýsingu um Rússarannsóknina

Kjartan Kjartansson skrifar
Robert Mueller hefur ekki sagt aukatekið orð opinberlega frá því að hann var skipaður sérstakur rannsakandi í maí árið 2017.
Robert Mueller hefur ekki sagt aukatekið orð opinberlega frá því að hann var skipaður sérstakur rannsakandi í maí árið 2017. Vísir/EPA
Robert Mueller, sérstaki rannsakandi bandaríska dómsmálaráðuneytisins, hefur boðað til blaðamannafundar klukkan 15:00 að íslenskum tíma í dag. Það verða fyrstu opinberu ummæli Mueller eftir að skýrsla hans um meint samráð forsetaframboðs Donalds Trump við Rússa og tilraunir Trump til að hindra framgang réttvísinnar var birt.

AP-fréttastofan segir að ekki liggi fyrir hvað Mueller ætli sér að segja. Vaxandi krafa hafi hins vegar verið uppi hjá demókrötum á Bandaríkjaþingi um að Mueller beri vitni fyrir þingnefnd um niðurstöður sínar og ágreining við William Barr, dómsmálaráðherra. Mueller er sagður hafa verið tregur til þess þar sem hann vilji ekki virðast vera pólitískur.

Hægt er að fylgjast með yfirlýsingu Mueller í spilaranum hér fyrir neðan. Hún á að hefjast klukkan 15:00 og búist er við að hún taki um átta mínútur.

Skýrsla Mueller var gerð opinber á skírdag en rannsókn hans stóð yfir í hátt í tvö ár. Saksóknarar hans gátu ekki sýnt fram á að framboð Trump hefði átt í ólöglegu samráði við útsendara rússneskra útsendara þrátt fyrir að í skýrslunni væri lýst fjölda samskipta á milli framboðsins og Rússa.

Þá tók Mueller ekki afstöðu til þess hvort að Trump hefði reynt að hindra framgang réttvísinnar með því að leggja stein í götu rannsóknarinnar. Dró hann þó upp nokkur atvik sem hægt væri að túlka sem þess lags brot.

Áður en skýrslan var gerð opinber greindi Barr dómsmálaráðherra Bandaríkjaþingi frá meginniðurstöðum Mueller í bréfi. Morguninn áður en skýrslan var gerð opinber hélt hann einnig blaðamannafund þar sem hann ræddi niðurstöðurnar áður en fréttamenn höfðu haft tækifæri til að kynna sér þær.

Síðar kom í ljós að Mueller hafði sent Barr bréf þar sem hann setti spurningamerki við framsetningu hans á niðurstöðunum. Taldi hann Barr hafa valdið ruglingi á meðal almennings um niðurstöður rannsóknarinnar.

Mueller er ekki sagður ætla að taka við spurningum í dag. Barr ráðherra er staddur í Alaska í vinnuferð.

Mueller var skipaður sérstakur rannsakandi í maí árið 2017 eftir að Trump rak James Comey, forstjóra alríkislögreglunnar FBI. Í sjónvarpsviðtali sagðist hann hafa haft Rússarannsóknina svonefndu í huga þegar hann tók ákvörðunina.


Tengdar fréttir

Gefur dómsmálaráðherra sínum skotleyfi á Mueller og FBI

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur skipað leyniþjónustum landsins að starfa með William Barr, dómsmálaráðherra sínum, við rannsókn hans á uppruna Rússarannsókninni svokölluðu, sem Trump hefur ítrekað kallað nornaveiðar. Auk þess veitti forsetinn ráðherranum vald til að svipta leynd af öllum þeim skjölum og gögnum sem hann vill.

Skýrslan lýsir tilraunum Trump til að skaða rannsóknina

Þrátt fyrir að ekki sé mælt með ákæru í skýrslu Roberts Mueller lýsir hann tilraunum Trump forseta til að leggja stein í götu rannsóknarinnar, þar á meðal með því að vilja reka Mueller sjálfan.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.