Erlent

Gefur dómsmálaráðherra sínum skotleyfi á Mueller og FBI

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. EPA/KEVIN DIETSCH
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur skipað leyniþjónustum landsins að starfa með William Barr, dómsmálaráðherra sínum, við rannsókn hans á uppruna Rússarannsókninni svokölluðu, sem Trump hefur ítrekað kallað nornaveiðar. Auk þess veitti forsetinn ráðherranum vald til að svipta leynd af öllum þeim skjölum og gögnum sem hann vill.

Á sama tíma berjast Trump og bandamenn hans með kjafti og klóm gegn því að gögn Rússarannsóknarinnar sjálfrar, né skýrsla rannsóknarinnar, verði gerði opinber.

Barr opnaði enn eina rannsóknina á Rússarannsókninni fyrr í þessum mánuði og er henni meðal annars ætlað að varpa ljósi á það hvort upplýsingaöflun varðandi framboð Trump og eftirlit með fyrrverandi starfsmönnum framboðsins hafi brotið lög.

Trump hefur ítrekað haldið því fram að „njósnað“ hafi verið um framboð hans. Christopher A. Wray, yfirmaður Alríkislögreglu Bandaríkjanna, sem skipaður var af Donald Trump, sagði fyrr í mánuðinum að ekki hefði verið njósnað um framboðið og hann sagðist ekki vita til þess að nokkuð ólöglegt hafi átt sér stað.

Á blaðamannafundi í gærkvöldi sagði forsetinn að fyrrverandi yfirmenn Alríkislögreglu Bandaríkjanna hefðu framið landráð og er það ekki í fyrsta sinn sem hann heldur því fram.

AP fréttaveitan segir að þessi skipun Trump muni skapa spennu á milli Hvíta hússins og leyniþjónusta, sem hafi á árum áður varist kröfum sem þessum af ótta við að opinbera heimildarmenn og leiðir sem notaðar eru til að afla upplýsinga.



Adam Schiff, formaður leyniþjónustunefndar fulltrúadeildarinnar, sagði í gærkvöldi að aðgerðir Trump og Barr væru óamerískar. Þeir væru að reyna að vopnvæða löggæslu og leynilega upplýsingar gegn pólitískum andstæðingum þeirra.

Nú þegar er innra eftirlit Dómsmálaráðuneytisins að rannsaka rannsóknina, ef svo má að orði komast, og innra eftirlit Alríkislögreglu Bandaríkjanna (FBI) einnig. Þetta er því þriðja rannsóknin á uppruna Rússarannsóknarinnar. Þar að auki hafa þingmenn Repúblikanaflokksins í öldungadeildinni, þar sem þeir eru í meirihluta, gefið í skyn að þeir vilji einnig rannsaka uppruna Rússarannsóknarinnar.

Með þessum rannsóknum vilja Trump og bandamenn hans grafa undan niðurstöðum Robert Mueller, sérstaks rannsakanda Dómsmálaráðuneytisins, sem ýjaði að því í skýrslu sinni að Trump hefði reynt að hindra framgang réttvísinnar. Mueller vildi ekki segja af eða á vegna starfsreglna Dómsmálaráðuneytisins um að ekki megi ákæra sitjandi forseta og þess í stað tíundaði hann tíu liði rannsóknar sinnar sem sneru að þeim möguleika og sagði það vera þingsins að taka ákvörðun.

Barr lýsti því þó sjálfur yfir að ekki væri tilefni til að ákæra Trump. Sannanir Mueller dygðu ekki til ákæru eða sakfellingar fyrir dómi. Barr hefur verið harðlega gagnrýndu fyrir atferli sitt í tengslum við skýrslu Mueller. Hann hefur ítrekað verið sakaður um að haga sér eins og einkalögmaður Trump en ekki eins og Dómsmálaráðherra Bandaríkjanna.

Sjá einnig: Saka dómsmálaráðherra Bandaríkjanna um vanvirðingu gagnvart þinginu

Rúmlega 900 fyrrverandi alríkissaksóknarar hafa þó skrifað undir yfirlýsingu þar sem þeir segja að ef Trump væri ekki forseti væri hægt að ákæra hann.

„Hver okkar trúir því að framferði Trump forseta eins og því er lýst í skýrslu Mueller myndi, í tilfelli annarra persóna sem væru ekki varðar af reglum Dómsmálaráðuneytisins gegn því að ákæra sitjandi forseta, leiða til margra ákæra fyrir að hindra framgang réttvísinnar,“ skrifa saksóknararnir.

Sjá einnig: Alríkissaksóknarar segja hægt að ákæra Trump ef hann væri ekki forseti

Trump hefur tekið vel í harða stöðu Barr gagnvart þinginu og blaðamönnum þegar ráðherrann hefur varið meðhöndlun sína á skýrslu Mueller. Þá mun Trump hafa fagnað því að Barr neitaði að mæta á fund þingnefndar og svara spurningum þingmanna, þrátt fyrir að honum hefði verið stefnt, og í kjölfarið var hann sakaður um vanvirðingu gagnvart þinginu.

Samkvæmt heimildum AP hefur Trump talað við ráðgjafa sína um að með Barr sé hann „loksins“ kominn með „dómsmálaráðherrann sinn“. Hann varð verulega ósáttur við Jeff Sessions, fyrrverandi dómsmálaráðherra, þegar hann sagði sig frá Rússarannsókninni eftir að upp komst að hann hafði sagt ósatt um samskipti sín og sendiherra Rússlands í Bandaríkjunum. Á endanum vék Trump ráðherranum úr starfi vegna þessa.


Tengdar fréttir

Skoða aðgerðir gegn fleirum í ríkisstjórn Trump

Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, gaf í skyn í dag að Demókratar í fulltrúadeildinni gætu sakað fleiri núverandi og fyrrverandi starfsmenn Donald Trump, forseta, um vanvirðingu gagnvart þinginu.

Æ fleiri demókratar hoppa á ákæruvagninn

Hópur fulltrúadeildarþingmanna demókrata hefur kallað eftir því að ferlið til að ákæra Donald Trump forseta fyrir embættisbrot verði hafið. Leiðtogar demókrata hafa hingað til staðist þrýsting samflokksmanna sinna og lagt áherslu á ljúka skuli þeim fjölmörgu rannsóknum sem þingnefndir fulltrúadeildarinnar vinna nú að.

Repúblikani segir rétt að ákæra Trump fyrir embættisbrot

Justin Amash, þingmaður Repúblikanaflokksins í Michigan og einn íhaldssamasti þingmaður Bandaríkjanna, varð í gærkvöldi fyrsti þingmaður flokks síns til að halda því fram að Donald Trump, forseti, hefði hagað sér á þann veg að hægt væri að ákæra hann fyrir embættisrétt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×