Erlent

Mynduðu sólsetur og sólarupprás á Mars

Kjartan Kjartansson skrifar
Sólsetrið á Mars eins og það hefði komið mönnum fyrir sjónir með berum augum  25. apríl.
Sólsetrið á Mars eins og það hefði komið mönnum fyrir sjónir með berum augum 25. apríl. NASA/JPL-Caltech
Bandaríska geimfarið Insight fangaði myndir af sólinni setjast og rísa á reikistjörnunni Mars í síðustu viku. Nokkurs konar hefð hefur skapast fyrir því að geimför bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA smelli af myndum af sólsetri og sólarupprás.

Insight lenti á Mars í nóvember en geimfarinu er ætlað að rannsaka innviði rauðu reikistjörnunnar. Um borð er fyrsti jarðskjálftamælirinn sem sendur hefur verið til Mars. Ætlunin er að kortleggja innra byrði reikistjörnunnar með nákvæmari hætti en hingað til hefur verið hægt.

Eftir að mörgum meginverkefnum geimfarsins var lokið í síðustu viku ákváðu stjórnendur þess að beina myndavél á hreyfanlegum armi þess að sjóndeildarhringnum. Myndirnar voru teknar 24. og 25. apríl þegar klukkan var 5:30 að morgni á tíma reikistjörnunnar og aftur þrettán klukkustundum síðar, að því er segir í tilkynningu Jet Propulsion Lab NASA sem stýrir leiðangrinum.

Sólarupprásin á Mars eins og hún kom fyrir sjónir Insight. Myndin hefur verið litaleiðrétt til að hún líkist sem mest því sem menn sæju.NASA/JPL-Caltech
Stærð sólarinnar á himninum á Mars er um tveir þriðju af stærðinni á jörðinni enda er Mars tæpum áttatíu milljón kílómetrum lengra frá sólinni en jörðin. Myndirnar sem NASA birti af sólsetrinu og sólarupprásinni voru bæði óunnar og unnar. Þær unnu eiga líkjast því sem menn sæju með berum augum á Mars.

Fyrri Marsför NASA hafa tekið sambærilegar myndir, þar á meðal könnunarjepparnir Spirit, Opportunity og Curiosity, að sögn Space.com.


Tengdar fréttir

Lentu geimfari á Mars

Geimfarið hefur sent fyrstu skilaboð til jarðarinnar þess efnis að allt virðist hafa gengið vel en lítið sem ekkert mátti fara úrskeiðis. Kerfið hafi ekki greint neinar bilanir eða galla, enn sem komið er.

InSight baðar sig í sólinni á Mars

Geimfarið InSight hefur sent skilaboð til Geimvísindastofnunar Bandaríkjanna, NASA, um að sólarrafhlöður farsins séu virkar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×